131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[14:31]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ef í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004 stendur eitthvað annað en stendur í frumvarpi til fjáraukalaga er fjármálaráðuneytið einfaldlega ekki sjálfu sér samkvæmt því að hér stendur þetta alveg svart á hvítu. (EOK: Það er bara villa.)

Annað sem vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns var þegar hann var að tala um verðbólguna, hina góðkynja verðbólgu einna helst. Hv. þm. sagði að ef við tækjum frá hækkun vegna húsnæðis og hækkun vegna olíu væri ekki mikil verðbólga. Því held ég að full ástæða sé til að spyrja hv. þingmann hvort þessar stærðir, húsnæðishækkun og olía, séu óregluglegir liðir þannig að verðbólgan verði lág þegar þeir eru teknir frá en ekki hafðir með. Er hv. þm. að nota þarna sömu kúnstir og fjármálaráðherra notar þegar hann leggur fram fjárlagafrumvarp?

Varðandi öryggisráðið og framboðið þar verð ég að segja eins og er að ég hef ekki marga þingmenn hitt eða heyrt sem mæla því bót. Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hverjir eru það þá sem vilja eyða þúsundum millj. króna í framboð til öryggisráðisins? Ég hef ekki fundið marga þingmenn sem mæla því bót.