131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:21]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað skiptir máli að menn haldi sig eftir því sem hægt er við fjárlögin. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Auðvitað ber að fara eftir fjárlögum, en það er einfaldlega ekki hægt að sjá fyrir ýmis atriði í fjárlögum, til að mynda launaþróun ef gerðir eru kjarasamningar. Tökum t.d. kjarasamningana sem nýverið voru gerðir sem auka við skuldbindingar ríkissjóðs án þess að ríkissjóður hafi haft neina aðkomu að þeirri kjarasamningagerð. Hægt er að tína til fjölmörg dæmi sem ekki verða séð fyrir. Það er einmitt þess vegna sem í lögum um fjárreiðurnar er gert ráð fyrir að hægt sé að breyta fjárlögunum með fjáraukalögum.