131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[23:48]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir óvenjulega hlutlæga gagnrýni sem kom fram í þessari ræðu. Sannarlega stakk þessi ræða töluvert mikið í stúf við þær upphrópanir sem maður hefur mátt heyra hér í allan dag þar sem menn reyndu ekki að nálgast neitt veruleikann heldur bara hrópuðu og kölluðu, því miður, ákaflega mikla fjarstæðu.

En þessi ræða var einmitt dæmi um það hvernig stjórnarandstaða getur og á að nálgast hin margvíslegu vandamál sem við eigum við að stríða við gerð fjárlaga. Það er ekkert auðvelt að eiga við þetta.

Hins vegar verð ég nú, herra forseti, samt að hryggja hv. þingmann með því að ég get ómögulega fallist á það sem hann sagði áðan um að við hefðum báðir haft rétt fyrir okkur vegna þess að það er alveg dagljóst að það var bara ég sem hafði rétt fyrir mér. Hann hafði rangt fyrir sér, svo og félagi hans hv. þm. Einar Már Sigurðarson.

Það er nefnilega þannig, hæstv. forseti, alveg eins og þingmaðurinn las upp úr þessum gögnum, þ.e. úr Stefnu og viðhorfum gagnvart árinu 2004 og svo líka Stefnu og viðhorfum gagnvart árinu 2005, að þetta stendur skýrum stöfum. Ég var einmitt að vekja athygli á því að þetta er meginmarkmið ríkisstjórnarinnar í fjármálum ríkisins. Það var og er gríðarlega mikilvægt að fara yfir það að það tókst.

Hins vegar er tafla þarna sem þeir virðast ekki átta sig á. Taflan er þannig byggð upp að fjármálaráðuneytið er ekkert að gera neina vitleysu. Í frumvarpinu, eins og það var lagt fyrir í upphafi, er gert ráð fyrir 1% hækkun samneyslu vegna þess að það er venja, verkvenja við gerð fjárlaganna að setja inn alla þekkta kjarasamninga og alls ekkert þar að auki og það var þá 1%. (Forseti hringir.) Reynslan sýndi síðan að þetta voru tæp 2% þegar gert var upp þannig að taflan er alveg hárrétt. Markmið ríkisstjórnarinnar var (Forseti hringir.) 2% og okkur tókst að fylgja því sem betur fer.