131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[23:50]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið erfitt í stuttu andsvari að fara yfir mál sem er jafnflókið og raun ber vitni án þess þó að líta út fyrir að vera það. En ég skal þó reyna.

Halda hv. þingmenn að ef ríkisstjórnin hefði ætlað sér á árinu 2004 að samneyslan mundi vaxa eða mætti vaxa allt að 2% að það hefði þá ekki verið sett inn í forsendur útreikninga? Halda menn að fjármálaráðherra, sem við höfum nú verið að væna um að vera kannski ekki með allt of góðar áætlanir í höndunum, hefði farið hér í gegnum tvær umræður um fjáraukalög þar sem fram kemur að fjárlög ársins 2004, samneysla, magnbreytingar, prósentur, ættu að aukast um 1% en síðan í áætlun ársins 2004, þ.e. eftir að fjáraukalögin eru komin fram, stendur 1,5% — það er frávik frá fjárlögum, hálft prósent — halda menn að hæstv. fjármálaráðherra hefði nú ekki komið hér og barið sér á brjóst og sagt: „Sjáið þið nú. Spá okkar um aukningu samneyslu stenst og hún gerir meira en að standast. Við gerðum ráð fyrir 2%, að hún mundi aukast um 2%. Hún eykst bara um 1,5%. Þarna sjáið þið nú aðhaldið í ríkisrekstrinum.“

Halda hv. þingmenn að hæstv. fjármálaráðherra hefði látið fram hjá sér fara svona tækifæri ef raunin hefði verið sú að þarna hefði átt að standa 2% en ekki 1%?