131. löggjafarþing — 39. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[01:53]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var sár og bitur stjórnmálamaður sem hér talaði. Hún var ákaflega svekkt yfir því að Samfylkingin hefði í dag haldið uppi árásum á Framsóknarflokkinn fyrir að hann hefði komið í veg fyrir að tiltekin skattalækkun næði fram að ganga.

Ég get vel skilið að hv. þingmaður sé svekkt eftir þennan dag. Tvennt stendur upp úr þegar þessari umræðu er að ljúka. Í fyrsta lagi að hafa hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, formaður flokks þess þingmanns sem hér talaði áðan, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, staðið fyrir því að svíkja loforð sem öryrkjum var gefið fyrir kosningar um 500 millj. kr.

Framsóknarflokkurinn reyndi þá, það sem fáir flokkar hafa gert, að kaupa sér atkvæði öryrkja með því að lofa þeim tilteknum hækkunum á bótum. En þeir sviku það eftir kosningar. Þetta hefur komið fram í umræðunni og það er von að hv. þingmaður sé svekkt yfir þessu.

Í annan stað er staðreynd að hér hafa allir flokkar meira og minna lýst yfir fylgi við að matarverð á Íslandi yrði lækkað með því að lækka matarskattinn. Allir flokkar nema einn. Það er eðlilega einna fréttnæmast úr þessari umræðu og það svíður hv. þingmanni. Framsóknarflokkurinn hefur komið í veg fyrir að matarreikningur íslenskra heimila verði lækkaður um 5 milljarða kr. Þessi ágæti þingmaður, hv. þm. Jónína Bjartmarz, kemur hingað og ver það að matarverði verði haldið uppi með þeirri miklu skattlagningu. Enginn skilur rökin fyrir þessu.

Herra forseti. Það er von að hv. þingmaður sé ekki glöð með afrakstur dagsins. Svo bæti ég því við að ég held að hver einasta tala sem hv. þingmaður fór með varðandi stjórnarandstöðuna hafi verið röng. Það er nokkurt afrek í svo langri ræðu.