132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ástand íslenska þorskstofnsins og veiðihorfur.

[14:02]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu að menn eru almennt sammála um að uppbygging þorskstofnsins hefur alls ekki tekist og ég held að við þurfum í sjálfu sér ekkert að deila um það. Mér finnst hins vegar ástæða til að árétta hér að skýrsla Hafrannsóknastofnunar, sem við höfum verið að vitna til, er ekki svört skýrsla um þorskinn. Það er ekkert tilefni til þess að túlka hana þannig.

Ef ég fer síðan yfir umræðuna, sem í meginatriðum hefur verið málefnaleg, stendur það upp úr að menn kalla fyrst og fremst eftir tvennu. Í fyrsta lagi segja menn: Við þurfum að auka veiðarfærastýringuna. Ég er sammála því. Það er rétt sem menn hafa verið að segja að það er ekki bara spurning um magnið sem við tökum heldur líka hvernig við tökum það magn. Það skiptir mjög miklu máli. Það er t.d. alveg ljóst að við höfum gengið of nærri stærsta þorskinum. Það er engin spurning um það og það sjáum við m.a. á öllum þeim tölum sem við höfum handbærar. Það liggur líka fyrir, sem hefur komið fram hér í umræðunni, að stærsti þorskurinn er auðvitað langverðmætastur fyrir hrygninguna því það er ekki bara spurningin um nýliðunina heldur líka hvernig þeim seiðum reiðir af.

Í annan stað hafa menn bent á, sem ég tek líka undir, að við þurfum sérstaklega að hyggja að fæðuframboðinu. Það er augljóst mál að loðnan skiptir þar langmestu máli. Breytt göngumynstur loðnunnar er mikið áhyggjuefni. Líklegasta skýringin á því er sú að skilyrði hafa breyst í sjónum en þá vaknar líka spurningin um áhrif veiðarfæranna, eins og ég hef margnefnt — aðferðir við loðnuveiðarnar hafa breyst.

Ég nefndi áðan að ég teldi ástæðu til þess að hyggja að því að takmarka frekar flottrollsveiðarnar, takmarka þær frekar heldur en við höfum verið að gera núna vegna þess að við sjáum að loðnan er ekki að ganga vestur fyrir Reykjanesið inn á sitt hefðbundna hrygningarsvæði. Það er auðvitað ein ástæða fyrir því að aðgengi þorsksins að loðnunni hefur ekki verið eins og við höfðum ætlað og hefði verið nauðsynlegt. Það er því vissulega rétt að við þurfum að spila saman annars vegar mál sem snýr að fæðuframboðinu og hins vegar að veiðarfærastýringunni. Ég tek undir það.