132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[18:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er dæmalaust, sennilega dæmalaust í sögu Alþingis. Í frumvarpinu er fjármunum ráðstafað um ókomin ár, um ókomin fjárlagaár, allt til ársins 2012. Kveðið er á um að breikka veg hér á árinu 2007, að gera gatnamót þar á árinu 2008 og síðan er það Sundabraut. Á hún að fara í einkaframkvæmd? Hæstv. forsætisráðherra hefur rætt fjálglega um þetta í tengslum við þetta platfrumvarp því að sjálfsögðu er þetta platfrumvarp. Öll þessi fjárframlög eiga eftir að koma til umræðu á komandi árum við fjárlagagerð og einkaframkvæmd Sundabrautar verður rædd við aðra lagasmíð líka. En þetta er ekki bara platfrumvarp. Þetta er tilraun til pólitískrar sjónhverfingar, tilraun til að réttlæta óvinsæla sölu Símans. Þess vegna eru þessi einkavæðingarfjárlög búin til. (Gripið fram í: Það er gott mál.) Þar eru bara vinsæl mál. Þar eru engin óvinsæl mál. Vinstri hreyfingin – grænt framboð mun ekki taka þátt í þessu sjónarspili.

Ég hef engar efasemdir um að Íslendingar muni ekki sjá í gegnum þessar blekkingar en það vil ég segja að ríkisstjórnir eiga ekki að komast upp með að kaupa sér vinsældir á fölskum forsendum því að það er verið að gera með þessu platfrumvarpi.