133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:27]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil líka óska hæstv. ráðherra til hamingju með að hafa loksins gert reka að því að lækka virðisaukaskatt á gangagjöldum. Þetta er mál sem Samfylkingin, sérstaklega hv. þm. Jóhann Ársælsson, hefur barist fyrir árum saman. Þakkarvert að hann skulu nú loksins fá stuðning frá ríkisstjórninni.

Síðan að því er varðar þá fljótaskrift sem er á þessu frumvarpi, þá liggur það náttúrlega alveg ljóst fyrir, að ef þetta frumvarp hefði verið undirbúið vel en ekki af skyndingu, þá hefðu menn kannski verið búnir að ljúka nauðsynlegum samningum varðandi tollamálin sem hæstv. ráðherra sagði að ekki væri búið að gera. Hvernig stendur á því að ekki er búið að hnýta þá enda sem lausir eru? Jú, vegna þess að þráðurinn var ekki tekinn upp nema rétt korteri fyrir þingbyrjun.

Hæstv. fjármálaráðherra og forusta Framsóknarflokksins fór á taugum út af þingmálum Samfylkingarinnar. Þið tókuð upp helminginn af hugmyndum Samfylkingarinnar, létuð að vísu hinn helminginn vera. Þið gerðuð þetta í slíkum flýti að að því er þetta mál varðar, þá er fjárlagafrumvarpið óklárað. Hæstv. fjármálaráðherra hafði ekki einu sinni tíma (Forseti hringir.) til að gera sjóklárt. Hann var svo mikið að flýta sér.