138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi tryggingagjaldið þá er það mikið áhyggjuefni hversu mjög hefur þurft að hækka það á skömmum tíma. Mér telst til að tryggingagjaldið hafi hækkað í nokkrum skrefum um 60% á einu ári. Það er þannig að tryggingagjaldið reiknast af brúttólaunum og í dag er það komið upp í 8,6%. Það má hugsa þetta sem sérstakan skatt á það að ráða til sín fólk. Það er samið um kaup og kjör og síðan verður að standa skil á 8,6% gjaldi ofan á brúttólaunin í Atvinnuleysistryggingasjóð. Við vitum að gjaldinu er ætlað að fjármagna atvinnuleysisbætur og einmitt af þeirri ástæðu, vegna þess að gjaldið er svo íþyngjandi og leggst svo þungt á fyrirtæki og alla þá sem þurfa að ráða til sín fólk, þá hljótum við að róa að því öllum árum að skapa ný störf, að eyða atvinnuleysinu. Lítið fer fyrir umræðu um það t.d. hvernig við getum mögulega unnið að því að lækka vexti og á haustdögum hefur ríkisstjórnin gripið til ýmissa aðgerða sem hafa orðið til þess að framkvæmdir sem hafa verið á teikniborðinu hafa tafist og frestast. Það frestar því að ný störf verði til.

Ríkisstjórninni virðist algerlega hafa mistekist að nota þetta ár til að finna leiðir svo að létta megi þrýstingi af krónunni og stuðla þannig að því að gjaldeyrishöftum verði aflétt fyrr og skapa þannig skilyrði fyrir vaxtalækkun. Ríkisstjórninni er algerlega að mistakast stóra verkefnið sem er að berjast gegn atvinnuleysi.