138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

bókhald.

219. mál
[16:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breyting á lögum um bókhald. Í fljótu bragði virðast þetta vera meira og minna breytingar sem leiða til þess að reglur um bókhald verði einfaldaðar.

Ég vil nefna kannski eitt atriði að það er talað um frávik frá textamáli, sem sagt að frávik frá því að birta texta á íslensku megi einkum rekja til þess að eigendur eða stjórnarmenn séu af erlendu bergi brotnir. Ég held að þetta sé of þröngt túlkað. Ég held að ársreikningar á erlendum tungumálum þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi fyrir íslensk fyrirtæki, jafnvel þó svo að þau geri upp í krónum og séu ekki með erlenda eigendur eða stjórnarmenn, að auðvelda t.d. fjármögnun erlendis þar sem þá verði einfaldari aðgangur að uppgjörum en ella.