140. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, fjármálaráðuneyti, Landssamtökum lífeyrissjóða, Bandalagi háskólamanna, Alþýðusambandi Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Forseti biður um einn fund í salnum.)

Í frumvarpinu er lögð til breyting á 2. málslið 4. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997, með síðari breytingum, vegna athugasemda Fjármálaeftirlitsins er lutu að tryggingafræðilegri stöðu A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en Fjármálaeftirlitið krafðist þess að stjórn sjóðsins endurskoðaði iðgjald launagreiðanda með hliðsjón af 4. mgr. 13. gr. Rétt þykir að kveðið verði með skýrum hætti á um að vikmörk 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eigi við um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Stjórn sjóðsins hefur litið svo á að 39. gr. laga nr. 129/1997 gilti um A-deild sjóðsins, enda væri óeðlilegt að aðrar reglur giltu um hana að þessu leyti og að ekkert svigrúm væri fyrir sveiflur.

Lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eru nokkuð skýr hvað varðar skyldu stjórnar til að hækka iðgjald launagreiðanda ef til komi tryggingafræðileg úttekt sem sýni að ekki sé jafnvægi á milli eigna og framtíðarskuldbindinga. Það sem vekur athygli í þessu máli er að svo virðist sem stjórnin hafi haft aðra túlkun á þessu og hafa stéttarfélögin sem eiga aðild að sjóðnum og menn í stjórn fengið lögfræðiálit sem gaf slíkt hið sama í skyn. Þá hefur Fjármálaeftirlitið ekki gert athugasemd við þetta áður þrátt fyrir að tryggingafræðileg staða sjóðsins hafi verið, eins og kemur fram í umsögn Fjármálaeftirlitsins, neikvæð allar götur frá árinu 2000. Um 11 ára skeið var því neikvæð staða í sjóðnum án þess að Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við það.

Þegar sú staða kom upp að Fjármálaeftirlitið gerði þessa athugasemd og stjórnir lífeyrissjóðsins og Fjármálaeftirlitsins greindi á var farið í að kanna hvaða leiðir væru bestar til að leysa úr þessari stöðu. Fjórar leiðir komu til greina. Sú fyrsta var að skerða réttindi sem er ekki einfalt mál og verður ekki gert nema með lagabreytingu. Önnur var útgáfa skuldabréfs til sjóðsins sem þýðir að verið sé að taka ákvörðun um óbreytta framkvæmd laganna. Sú þriðja var hækkun á framlagi launagreiðanda um 4% sem ógnar því samkomulagi sem er milli ríkisins og vinnumarkaðarins um að jafna lífeyrisréttindi á almenna og opinbera vinnumarkaðnum. Fjórða leiðin var að taka af allan vafa um að í lögunum giltu vikmörk 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda einnig um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Sú leið hefur verið valin sem þýðir að enn er ekki tekið á þeim vanda sem er uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar vegna A-deildar sem eru nú orðnar, miðað við þær upplýsingar sem nefndin fékk, um 51 milljarður kr. Það eru gríðarlegir fjármunir og mikið áfall í ljósi þess að A-deildin var einmitt sett á laggirnar til að koma í veg fyrir slíka langtímauppsöfnun halla.

Sú sem hér stendur hefur haft umtalsverðar áhyggjur af lífeyrisskuldbindingum ríkisins, ekki síst hvað varðar B-deildina, og var einmitt með fyrirspurn á 138. löggjafarþingi um það hvernig ætti að taka á þessum málum og hverjar þessar skuldbindingar væru. Við í meiri hlutanum höfum samt sem áður stutt það að þessi lagabreyting gengi í gegn, og eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans teljum við mikilvægt að áætlun um hvernig tekið verði á lífeyrisskuldbindingum ríkisins líti sem fyrst dagsins ljós. Þess má geta að við í fjárlaganefnd höfum fengið mjög ítarlega skýrslu um lífeyrisskuldbindingarnar og munum fara yfir hana. Í upphafi næsta árs munum við halda fundi um það mál og fara yfir það hvaða áætlun á að fylgja varðandi greiðslu ríkisins á þessum skuldbindingum.

Það er líka vert að hafa í huga að þetta er mjög gamalt vandamál. Þetta er langtímavandi sem hefur fengið að vaxa og menn veigrað sér við að takast á við. Núverandi ríkisstjórn gerði í stöðugleikasáttmála samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um að farið yrði í að finna leiðir til að greiða úr þessum málum og jafna lífeyrisréttindi. Varðandi opinberu sjóðina var starfshópur settur á laggirnar 27. janúar sl. skipaður fulltrúum Bandalags opinberra starfsmanna og fjármálaráðherra. Í ljósi hinna miklu hagsmuna fyrir launafólk sem og ríkissjóð teljum við mikilvægt að skapa sátt um leið og þessi vandi sé leystur eða tillögur komi að því hvernig eigi að gera það. Við teljum því rétt að starfshópurinn fái svigrúm til að skila tillögum. Honum er einmitt ætlað að ræða lausnir á fortíðarvanda A- og B-deilda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs heldur kunni að fresta því að greiða þurfi hærri iðgjöld í lífeyrissjóðinn að því gefnu að lífeyrisréttindi haldist óbreytt. Nefndin leggur til í ljósi þess sem ég hef farið yfir hér, frú forseti, að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álitið rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Björn Valur Gíslason, Björgvin G. Sigurðsson, Róbert Marshall og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.