141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:25]
Horfa

Guðrún Erlingsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var boðuð á þing síðasta fimmtudag og settist inn á þing á mánudaginn og eðli málsins samkvæmt hef ég ekki haft mikinn tíma til að kafa ofan í málin. En ég tel að til dæmis prófkjör Samfylkingarinnar undanfarið hafi sýnt að ekki hafi þurft að beita kynjareglunni. Við erum á góðri leið með það að kenna þjóðinni, ef svo má segja, að virða bæði konur og karla. Vissulega getur þetta skarast og vissulega koma stundum skrýtnar niðurstöður út úr prófkjörum og kosningum og við þurfum að leita allra leiða til að leiðrétta það eða gera kosningalögin þannig úr garði að þeir sem veljast til Alþingis vísi til sem breiðasta hóps á landinu. Ég á ekki hér og nú einhverjar lausnir á því hvernig við leysum það.