143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst þetta, það er rétt hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að leiðarahöfundur Fréttablaðsins vitnar rétt til ummæla minna frá síðasta kjörtímabili. Hann virðist hins vegar misskilja eitthvað það sem ég hef sagt um þetta mál síðustu daga. Það er of langt mál að fara út í það en ég er hér með útprentun af viðtali á Sprengisandi og frétt úr Morgunblaðinu í gær sem lýsir afstöðu minni. Þær ályktanir sem leiðarahöfundur Fréttablaðsins dregur eru ekki í samræmi við ummæli sem ég læt falla í þessum tveimur fjölmiðlaviðtölum, þannig að það sé sagt. Það er byggt á einhverjum misskilningi þarna til þess að búa sér til einhverja stöðu í málflutningi.

Hv. þingmaður getur komið og litið á útprentanirnar hjá mér til að fá staðfestingu á því að þarna er um einhvern misskilning að ræða.

Varðandi stöðu málsins álít ég að það sé líka misskilningur að eitthvað sé í lausu lofti um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að taka á þessum málum. Lagt hefur verið upp með ákveðna áætlun um hvernig þessi mál verði tekin sem leiðir síðan til niðurstöðu sem auðvitað er ekki fyrir fram ákveðin. Menn þekkja sjónarmið einstakra stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna til framhaldsins en það sem hefur komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, eins og gert var ráð fyrir í stjórnarsáttmála, er í fyrsta lagi að viðræðum skyldi hætt þar til annað kæmi í ljós, gert hlé eða hvernig sem menn vilja orða það án þess að um slit viðræðna væri að ræða. Evrópusambandinu var tilkynnt um það. Í öðru lagi var greint frá því, bæði í stjórnarsáttmála og síðar, að í gang færi mat, skýrslugerð, sem ætti að skila sér til þingsins og í framhaldi af því yrði tekin ákvörðun. Auðvitað hafa menn allan tímann þekkt þá stefnu þessara stjórnarflokka sem kom skýrt fram í landsfundarályktunum þeirra á síðasta vori, að menn ætluðu sér ekki að halda áfram viðræðum og það yrði ekki gert nema til kæmi skýr niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Um þjóðaratkvæðagreiðsluna hefur hins vegar engin ákvörðun verið tekin.