143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tók til þess í ræðu minni að ekki er útlit fyrir að óbreyttu að hér verði neinar fjárfestingar í stóriðju því að áformin um Helguvík eru ekki lengur uppi á borðinu, það eru auðvitað ýmsir sem fagna því. Það er ljóst að ekkert er að gerast í atvinnumálum þar. Það hvernig skipulega eru skorin niður öll framlög í græna hagkerfið, í rannsóknir og þróun sýnir okkur að ríkisstjórnin er ekki að leggja inn í nýsköpun og vaxtarsprota í atvinnulífinu. Hún er heldur ekki að ráðast í neinar fjárfestingar. Það er ástæða til að vekja athygli á því að t.d. Economist, sem í ríkisfjármálum og efnahagsmálum er almennt ákaflega varfærið rit, hvetur ríkisstjórnir Vesturlanda til að nýta afl ríkisins til fjárfestinga.

Það er auðvitað umhugsunarefni að það voru ranghugmyndir nýfrjálshyggjunnar um ríkisfjármál og efnahagsmál sem leiddu ekki bara Ísland heldur allan heiminn inn í þá miklu alþjóðlegu kreppu sem við fórum í gegnum árið 2008. Mér finnst Hús íslenskra fræða vera býsna góð táknmynd um stefnuleysi og hringlandahátt ríkisstjórnarinnar þegar kemur að framkvæmdum og atvinnumálum. Þar er hætt að byggja hús þar sem búið er að taka grunn og verja til þess verulegum fjármunum, og þegar á að ráðast í framkvæmdina sjálfa vill ríkisstjórnin frekar verja fjármunum til þess að moka aftur ofan í grunninn en til þess að klára verkefnið. Er þó mikil ónýtt framkvæmdageta í hagkerfinu og engar áhyggjur að hafa af þenslu þó að í verkefnið væri farið.