144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

breyting á lögum um Stjórnarráðið.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst að síðustu spurningunni, sem svarar þá kannski mörgum öðrum spurningum sem fram komu í máli hv. þingmanns, spurningunni hvernig þetta lagaákvæði eigi að líta út. Það kemur að sjálfsögðu fram í frumvarpinu þar sem hv. þingmaður getur kynnt sér það. Það er hins vegar misskilningur ef hv. þingmaður telur að það séu nýmæli að ráðherra fái heimild til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra. Slíkt ákvæði var í stjórnarráðslögunum, féll út við endurskoðun laganna 2011 án umræðu, að því er virðist óvart, enda er afleiðingin sú að eins og sakir standa má ekki aðeins túlka það sem svo heldur lítur það nánast þannig út að opinberar stofnanir megi hvergi annars staðar vera en í Reykjavík. Þar með er ekki hægt að setja upp opinberar stofnanir í Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ eða á Akureyri eða annars staðar. Það er að sjálfsögðu mjög óheppilegt að lögin standi með þeim hætti og því er hér um að ræða leiðréttingu eða lagfæringu vegna breytingarinnar 2011.

Hvað varðar hins vegar ýmis álitamál sem hv. þingmaður nefndi, álitamál sem fylgja flutningi stofnana, er þetta að sjálfsögðu allt atriði sem ber að hafa í huga við flutning stofnana. Á að líta til Noregs? spurði hv. þingmaður. Ég teldi mjög æskilegt að menn litu til Noregs eftir fyrirmyndum hvað varðar dreifingu opinberra starfa, enda hafa Norðmenn náð meiri árangri í þeim efnum heldur en flestar eða líklega allar aðrar Evrópuþjóðir. Á að framkvæma kostnaðarmat við hagræðingu? Að sjálfsögðu á að huga að slíkum hlutum þegar ráðist er í slíkar ráðstafanir. Svo að stutta svarið til hv. þingmanns er: Já, þetta eru allt þættir sem æskilegt er að huga að.