145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það kostar alltaf að brjóta lög og reglur. Í þessu máli kom upp sú einstaka staða að í hv. utanríkismálanefnd þá fengu nefndarmenn ekki ráðrúm til þess að ræða augliti til auglitis við ýmsa aðila sem höfðu gefið umsagnir um málið. Það að brjóta þá hefð og þann rétt okkar þingmann kostar það að hæstv. ráðherra verður að koma hingað og sitja undir umræðunni.

Það kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að í einni tiltekinni umsókn er beinlínis bent á að það eru rangfærslur, sem sumir kalla nú þyngra orði en einungis rangfærslur, að finna í greinargerð hæstv. ráðherra. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vill eiga orðastað við hann.

Nú hefur fjarvera hæstv. ráðherra á framsóknarflandri sínu gert þetta mál enn snúnara. Ég tel að ekki sé hægt að ljúka þessari umræðu fyrr en hv. þm. Ögmundur Jónasson sem er í lögmætum erindagjörðum fyrir Alþingi Íslendinga á kost á því að (Forseti hringir.) ræða þetta við hæstv. ráðherra vegna þess að við í stjórnarandstöðunni og (Forseti hringir.) fulltrúi hennar fékk ekki að ræða þetta í nefndinni.