145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hlýt að byrja þar sem ég endaði, á því að gagnrýna það, og það fer þá einu sinni enn inn í þingtíðindi, að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki vera við umræðuna eða henni þannig hagað að hann sé hér, sitji undir henni allri og taki þátt í henni allri það sem eftir lifir af henni. Það fyndist mér vera algert lágmark. Það liggur fyrir að hæstv. ráðherra er sá eini sem getur svarað mjög mörgum spurningum, þ.e. ef hann þá getur það. Til dæmis er augljóst mál að þegar böndin berast að því að upplýsingar í greinargerð frumvarpsins séu jafnvel villandi, eða, sem er augljóst, að þar eru algerlega órökstuddar fullyrðingar um meint gagn af þessu máli, þá er ekki hægt að ætlast til að nefndarmenn, jafnvel þótt þeir standi að meirihlutaáliti um málið, geti svarað fyrir það í einstökum atriðum. Það væri í raun ekki sanngjarnt, nema þeir hefðu farið yfir það með ráðherra og hefðu um það allt saman upplýsingar en svo mun ekki hafa verið.

Það er mjög mörgum spurningum ósvarað í þessu máli sem er eðlilegt að gerð sé krafa til að sé svarað áður en ráðist er í breytingar af þessu tagi. Við höfum verið að reyna að bæta okkar verklag hvað varðar það að sameina stofnanir og vinna þau mál með góðri undirbyggingu. Það er til handbók um það uppi í fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun hefur komið með ítrekaðar ábendingar gegnum árin um hvernig best sé að haga svona málum. Á köflum hafa menn reynt að vinna það í góðu samstarfi við starfsmenn og viðkomandi aðila.

Það verður ekki sagt núverandi ríkisstjórn til hróss að hún hafi haldið áfram að þróa vandaða aðferðafræði í þessum efnum. Núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur forklúðrað fleiri en einu og fleirum en tveimur málum af þessu tagi. Allir vita hvernig menn fóru fram úr á öfugum fæti gagnvart því sem hefði getað verið ágætt mál, að færa í áföngum og á grundvelli vandaðs undirbúnings þungamiðju starfsemi Fiskistofu norður í land, hefði verið rétt að því staðið og byrjað rétt og málið unnið í samráði við starfsmenn og því leyft að taka sinn tíma. Ég tel að sömuleiðis hafi verið illa staðið að undirbúningi á sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar, sérstaklega hvað varðar starfsmannaþáttinn. Það mál var unnið nær algerlega án samráðs við félög starfsmanna. Það veit ég. Í stað þess að leita samstarfs við þá, fá þá með í vinnu við að greina til dæmis möguleg samlegðaráhrif, jákvæð áhrif og neikvæð af því að færa þessa starfsemi saman var það ekki gert. Hér er þriðja dæmið um forkastanleg vinnubrögð að mínu mati. Auðvitað hefði verið á þessu annar svipur ef hæstv. ráðherra hefði sett málið í vandaðan búning og farveg í kjölfar skýrslunnar sem hann notar sem aðalgagn sitt í þessu máli, unna af starfsmanni Rauða krossins, sett niður starfshóp með fulltrúum starfsmanna og kannski óháðra aðila úr háskólanum og, ef það hefði orðið niðurstaðan, hefðum við getað byggt á sameiginlegu, vönduðu áliti slíks hóps þar sem starfsmenn stofnunarinnar með sérþekkingu á faginu hefðu verið aðilar að málinu og verið sáttir við það. En það er engu slíku til að dreifa hér, engu. Þetta er afsprengi einhverrar lokaðrar vinnu í ráðuneytinu og skortir átakanlega allan rökstuðning.

Förum aðeins yfir það hvar rökin ættu að liggja. Í fyrsta lagi og það sem mest er um vert er að hæstv. ráðherra færði fram trúverðugar, faglegar röksemdir fyrir því að gera þetta. Það er ekki gert. Þvert á móti er ýmislegt í gögnum og hliðargögnum málsins sem vísar jafnvel í gagnstæða átt. Með breytingunni gæti orðið afturför í faglegu tilliti, það yrði minna vægi og sjálfstæði sem hin faglegu sjónarmið byggju við þegar búið er að grauta þessu saman við almenna utanríkismálastefnu og framkvæmd hennar í ráðuneytinu. Er einhver rökstuðningur í greinargerðinni fyrir þessu? Nei. Það vantar ekki að menn eru fullyrðingagjarnir, þeir vísa til þess að þrátt fyrir og til viðbótar við þær breytingar sem hafi orðið á síðastliðnum árum megi ná fram, eins og segir í frumvarpinu, „frekari árangri með því að vinna að þróunarsamvinnu með heildrænni hætti og ljóst er að enn er töluvert svigrúm til að auka samhæfinguna. Með því að hverfa frá tvískiptingu, eins og hún er í dag, má ná meiri krafti, sveigjanleika og samhæfingu í málaflokknum.“ Það hefði mátt bæta við þessa upptalningu að þetta yrði skemmtilegra og eitthvað svoleiðis, en þetta eru engin rök. Hver sem er getur sett svona fullyrðingar fram ef hann þarf ekki að hafa fyrir því að færa ein einustu rök fyrir þeim. Það er ekki gert í greinargerðinni og hefur ekki verið gert hér af aðstandendum málsins, enda eru þeir fáir eins og kunnugt er. Þetta er eitthvert munaðarlausasta mál sem lengi hefur rekið á fjörur Alþingis. Það er eðlileg krafa að hæstv. ráðherra geri að minnsta kosti tilraun til að koma með faglegar, haldbærar röksemdir.

Í öðru lagi væri eðlilegt í svona tilvikum að spyrja um fjárhagsleg rök. Hæstv. ráðherra yrði sennilega í nokkrum vanda að útlista fyrir okkur að þetta væri hagstætt í fjárhagslegu tilliti, hafandi með frumvarpinu umsögn eða álit skrifstofu opinberra fjármála í fjármálaráðuneytinu þar sem afar varfærnislega er sagt sem svo að hugsanlega, einhvern tíma í framtíðinni, gæti leitt af þessu einhver sparnaður. Það er ekki fastar að orðið kveðið. Hefur ráðherrann einhver fjárhagsleg rök sem fjármálaráðuneytinu yfirsást? Er eitthvað meira í pípunum? Hefur utanríkisráðherra hugmyndir um að gera þetta einhvern veginn öðruvísi og spara samt, þó að fjármálaráðuneytið sjái það ekki sjálft með sinni fagþekkingu? Gaman væri að heyra í hæstv. ráðherra um það.

Síðan vantar auðvitað að hæstv. ráðherra komi hér og ræði heiðarlega um það hvað er í hans huga og ráðuneytisins fólgið í þessari samhæfingarhugsun. Hvað þýðir að „sameina“ þetta í einhverjum skilningi sem ráðuneytið mögulega leggur í það orð? Við viljum fá að vita það nákvæmlega. Þýðir það að þróunarsamvinnan verði að ósjálfstæðri einingu sem hafi ekki sama faglega „pondus“ og sjálfstæði og hún hefur í dag í sjálfstæðri og óháðri stofnun? Þá er það grafalvarlegur hlutur sem við viljum ræða hér. Við viljum engan feluleik um það mál. Það er gefið í skyn og lesa má milli línanna hugsun um að keyra eigi áherslurnar í þróunarsamvinnu saman við almenna utanríkispólitíska stefnu Íslands, jafnvel eins og hún er á hverjum tíma. Á þá að breyta þessu í eitthvert tæki til að ná hugsanlega fram einhverjum öðrum markmiðum? Pólitískum markmiðum, hagsmunatengdum markmiðum? Koma ár okkar fyrir borð í tilteknum heimshlutum? Það er ósköp einfaldlega eitthvað sem að minnsta kosti ég og fleiri mundum rísa algerlega öndverðir gegn. Það væri afturför, skref aftur til liðinna áratuga, mistaka í aðferðafræði á þessu sviði sem menn hafa alls staðar horfið frá og lært af. Í nágrannalöndunum er það algert bannorð að blanda saman utanríkis- og viðskiptapólitískum hagsmunum og faglegum áherslum á sviði þróunaraðstoðar. Ef það er eitthvað sem mönnum er heilagt í dag er það að verja sig fyrir ásökunum um slíkt og fá gagnaðilana til að treysta því að þeim gangi ekkert annað til með sínum störfum en gott, að láta gott af sér leiða og aðstoða heimamenn á þeirra forsendum við að reyna að þróa sín samfélög, bæta þar lífskjör og skilyrði.

Við erum að tala um alvöruhluti þegar til stykkisins kemur. Það er algerlega ólíðandi að hæstv. ráðherra komist upp með það og stjórnarliðið lætur sig hverfa í reyk um leið og málið er komið á dagskrá, það reynir enginn maður að taka upp hanskann eða málsvörn fyrir ráðherrann eða málið. Það segir sína sögu um það hversu óskaplega munaðarlaus þessi krógi er. Þá er enginn eftir annar en ráðherrann sjálfur nema hann kjósi að draga málið til baka sem hann ber sjálfsagt ekki gæfu til.

Það væri hægt að hugsa sér margar millileiðir af því að menn vilja jú vera jákvæðir og lausnamiðaðir og hafa nefnt spurningar um hvernig hægt væri að komast út úr þessu þannig að allir héldu andlitinu. Ég mundi telja að það væri með því að fresta því með einhverjum hætti að lögin, jafnvel þótt samþykkt yrðu, kæmu til framkvæmda. Breyta þessu í eðli sínu kannski í heimildarlög, skilyrt við að menn væru búnir að vinna þetta mál sómasamlega áður en ráðist yrði í þessa sameiningu. Menn mundu bíða eftir jafningjaúttekt OECD, setja kannski vinnuhóp í að greina málið betur með aðild sérfræðinga, skila skýrslum um slíkt til Alþingis, og þá væru lögin í sjálfu sér þannig úr garði gerð að (Forseti hringir.) að þessu öllu uppfylltu veittu þau heimildir til að gera þetta að einu eða tveimur árum liðnum ef menn teldu það eftir sem áður ráðlegt, sem ég efast reyndar stórlega um að yrði niðurstaðan.