145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni ræðuna og fyrir áhugaverðar hugmyndir sem hann kom með í lokin um með hvaða hætti menn gætu leyst þetta mál. Við erum búin að reyna það dag eftir dag að lenda málinu með einhverjum hætti. Þess vegna höfum við óskað eftir því að hér sé einhver fulltrúi stjórnarflokkanna og ráðherra í salnum til að eiga við okkur samtal um einmitt það. (Gripið fram í.) Ég tek undir það með hv. þingmanni að við hljótum þess vegna að gera kröfu um að ráðherra komi hingað og eigi við okkur samtal. Mér líst vel á þær hugmyndir sem hann reifar hér um það með hvaða hætti við gætum lent málinu.

Í umræðum um fundarstjórn forseta áðan kom formaður nefndarinnar hingað upp og lýsti því fyrir okkur að málið væri fullrætt að hennar mati. Hvers vegna segir hún það? Jú, vegna þess að málið hafði verið rætt á síðasta þingi. En mál falla niður milli þinga, síðan koma þau aftur inn í þing og í millitíðinni er jafnvel skipt um nefndarfólk. Formaður nefndarinnar sat ekki einu sinni sjálf í nefndinni á síðasta þingi þegar fjallað var um málið. Hv. þm. Kristján L. Möller fór ágætlega yfir það áðan að umsagnarfresti lauk 15. október, frekar en nóvember. Daginn eftir var málið tekið til umfjöllunar og daginn þar á eftir var málið tekið út á óhefðbundnum fundartíma.

Ég spyr hv. þingmann: Finnast honum þessi vinnubrögð í lagi? Hvað finnst honum almennt um þessi vinnubrögð og að forseti þingsins skuli leggja blessun sína yfir þau með því að setja málið ítrekað á dagskrá í trássi við vilja okkar hinna sem viljum að um það sé fjallað með faglegum hætti? Það eru ekki bara nefndarmenn (Forseti hringir.) í utanríkismálanefnd sem óskað hafa eftir því heldur líka við hin sem eigum síðan að greiða atkvæði í tengslum við þetta mál. (Forseti hringir.) Við viljum að málið fái eðlilega umfjöllun í nefnd.