145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að vel hafi mátt greina vilja hjá mörgum þingmönnum til að ná saman um skynsamlegri málsmeðferð þrátt fyrir harða gagnrýni á þetta mál. Ég leyfi mér að fullyrða að það væri alveg hægt, ef menn eru ekki of þrjóskir, að brjóta odd af oflæti sínu og viðurkenna að það sé ekki skynsamlegur málatilbúnaður og leiðangur sem menn eru staddir í.

Varðandi meðferð þingsins á þessu máli er það þannig að svo lengi sem mál lifa ekki milli þinga og eitt samfellt ferli er fólgið í rannsókn Alþingis á þeim og í vinnu við þau, eru þau endurflutt og fara í nákvæmlega sama ferli. Það eru engin sérstök skil í því eða eitthvað styttri eða óvandaðri málsmeðferð. Það er einfaldlega þannig að ef þing hyggst setja lög ber því að tryggja að málsmeðferðin sé með ákveðnum hætti, það séu þrjár umræður, málið gangi til nefndar og sé rannsakað þar og að Alþingi uppfylli svokallaðar rannsóknarskyldur sínar. Tryggja þarf að mál sé aldrei afgreitt órannsakað. Og síðan eftir að Alþingi var sameinað í eina málstofu hefur sú hefð verið að óski einhver eftir því að mál gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. er alltaf orðið við því. Það var bókað í þingtíðindum á sínum tíma þegar Alþingi fór í eina málstofu.

Síðan er það að lokum þannig að mál þroskast og þróast. Viðhorfin til þeirra breytast. Það getur jafnvel gerst milli þinga eða á hálfu ári. Ég nefni dæmi um mjög hliðstætt mál þegar hæstv. fjármálaráðherra kom fram með frumvarp og ætlaði að leggja Bankasýslu ríkisins niður. Hann sá að sér varðandi það mál. Frumvarpið var aldrei afgreitt. Hvað er að frétta af því í dag? Bankasýsla ríkisins var að ráða tvo nýja starfsmenn og nú gerir enginn ráð fyrir öðru en að hún haldi áfram að starfa. Það er gott dæmi um að mál hafði gott af að (Forseti hringir.) fá þá gagnrýni sem það fékk hérna. Það breytti algerlega um kúrs. Hví skyldi ekki geta farið þannig í þessu máli, ef við fengjum nú orðastað við hæstv. ráðherra og almennilega umræðu um það?