145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég held að þetta sé í fimmta skipti sem ég kem hingað upp til árétta það — ég veit ekki hversu oft ég þarf að segja það, hvort það skiptir nokkru máli — þegar því er haldið fram hér að ekki hafi verið orðið við óskum nefndarmanna í utanríkismálanefnd um gesti. Það er rangt. Það var orðið við öllum óskum um gesti á fundi nefndarinnar, öllum óskum. Það er hárrétt að málið var afgreitt á þeim tveimur fundum sem hér hafa verið nefndir en það var orðið við öllum slíkum beiðnum. Það lá ekki fyrir nein beiðni um að fá á fund nefndarinnar gesti frá ASÍ vegna þess að þeir höfðu komið áður og skiluðu ekki að þessu sinni formlegri umsögn heldur vísuðu þeir í fyrri umsögn. Allur sá endalausi málatilbúnaður hér um að menn hafi ekki fengið gestina inn sem þeir vildu o.s.frv. — það er hvorki rétt né satt.

Við getum rifist hér um efnisatriði málsins og við skulum gera það og vera alveg einlæg og heiðarleg í því, en að halda því fram að það þurfi að taka málið aftur inn í nefnd vegna þess að minni hlutinn í nefndinni hafi ekki fengið gesti er (Forseti hringir.) rangt. Þó að það væri ágreiningur um mjög mörg efnisatriði málsins á fundi nefndarinnar þá var ekki ágreiningur um að (Forseti hringir.) afgreiða málið úr nefnd.