145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta mál er ekkert smámál. Mér fannst hæstv. ráðherra skauta svolítið léttilega í máli sínu yfir þær athugasemdir sem hafa verið gerðar í þessari umræðu við málið. Annaðhvort skiljum við þingmenn ekki málið rétt eða hæstv. ráðherra tekur ekki mark á þeirri efnislegu gagnrýni sem hefur komið fram á málið og gerir lítið úr athugasemdum sem hafa komið fram og telur þær léttvægar. Hann talar líka eins og stofnunin í sjálfri sér og starfsemi hennar verði óbreytt innan ráðuneytisins. Það muni lítið breytast frá því sem nú er og engin fjárhagslegur sparnaður verði af þessari framkvæmd né slegið af faglegum kröfum til þróunarsamvinnunnar. Maður spyr sig: Til hvers er leikurinn gerður ef hæstv. ráðherra telur að allt verði óbreytt frá því sem var? Af hverju er ekki hægt að mætast einhvers staðar annars staðar í þessu máli til að gera það þannig úr garði að hægt sé að ná utan um ólík sjónarmið í þeim efnum og starfsemin verði gerð út með sóma af hálfu okkar Íslendinga í framtíðinni og njóti efans um að verið sé að fara út í að draga úr faglegum þáttum og eftirliti með því hvernig farið er með féð sem fer inn í þróunarsamvinnu og veitir ekki af að nýta vel því að við erum eftirbátar annarra þjóða í framlögum til þessa málaflokks?

Það hefði verið gott ef ráðherra hefði komið fram með áætlun í þeim málum, hvernig við Íslendingar ætlum að spýta í lófana í þessum efnum og koma með meira fjármagn inn í þróunarsamvinnu og sýna að við erum þjóð meðal þjóða og í raun rík miðað við þær fátæku þjóðir sem eiga í hlut og við höfum sinnt vel með því fjármagni sem Þróunarsamvinnustofnun hefur haft úr að spila.

Mér fannst hæstv. ráðherra skauta létt í gegnum þetta allt. Það sem kom helst fram í máli hans er að það hefði verið gott að fara til Malaví og þar hefðu móttökur verið góðar og allt í góðu með það. Ég efast ekki um að vel hafi verið tekið á móti ráðherra þótt hann hafi ekki ákveðið að bjóða starfsmönnum eða forstöðumanni Þróunarsamvinnustofnunar með í þá ferð.

Í þessu máli hefur margítrekað verið undirstrikað að stofnunin sé til fyrirmyndar og Ríkisendurskoðun hefur margítrekað það við afgreiðslu ársreikninga. Hæstv. ráðherra hefur talið þurfa að fara í þessa innlimun í ráðuneytið til að styrkja tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála, tryggja að gengið sé í takt við utanríkisstefnu Íslands. Manni er þá spurn: Hafa verið meinbugir á því að það hafi verið gert? Þeirrar spurningar hefur verið spurt á nefndarfundi hjá utanríkismálanefnd. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins hafa verið þráspurðir um samstarf ráðuneytisins við ÞSSÍ og hvort dæmi séu um að samskipti við erlenda aðila af hálfu stofnunarinnar hafi ekki verið í takt við utanríkisstefnuna. Það virðist ekki hafa verið hægt að gagnrýna þá stefnu sem stofnunin hefur rekið, hún hafi verið í takt við stefnu ráðuneytisins.

Það hefur líka komið fram að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar hafi verið mjög gagnrýnir, það kemur fram í umsögn frá þeim. Þau telja, með leyfi forseta:

„… að æskilegt væri að færa fleiri verkefni á sviði þróunarsamvinnu yfir til ÞSSÍ og efla málaflokkinn á þann hátt, enda eru fyrir því fjölmörg rök. Við leggjum því eindregið til að Alþingi standi við fyrirheit um aukin framlög til þróunarsamvinnu og styðji þá stofnun sem býr yfir mestum faglegum styrk á því sviði á Íslandi.“ — Sem er Þróunarsamvinnustofnun.

Hvað rekur ráðherra til að fara í slíka vegferð þegar þessi stofnun hefur allt til að bera og sú skýrsla sem hefur verið vísað mikið til í þessari umræðu, jafningjaúttekt þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC, er væntanleg? Þá er hægt að skoða hvort eitthvað megi laga og bæta en ekki vísa til einhvers frá árinu 2008 sem stenst ekki skoðun, að þar hafi DAC lagt til að hrist yrði upp í þessari starfsemi og vísa til að farið sé eftir þeirra ráðum í ákvörðun hæstv. ráðherra.

Það hníga öll rök að því að hægt sé að hafa þetta fyrirkomulag með sama hætti. Ég get alveg í ljósi sátta í þessu máli fallist á einhverja leið til að mæta ólíkum sjónarmiðum í stað þess að ráðherra gangi svona digurbarkalega fram og geri þetta „af því bara“. Hann hefur talað þannig til starfsmanna stofnunarinnar að hann þurfi ekki að rökstyðja það neitt sérstaklega. (GBS: Það er ósatt.) Það er orð á móti orði í þeim efnum. Skilningurinn er á þann veg að ekki þurfi að rökstyðja það neitt sérstaklega, enda er enginn skilmerkilegur rökstuðningur fyrir að slá þessa stofnun inn í utanríkisráðuneytið. Þórir Guðmundsson, sem gerði skýrsluna sem vísað er mest til að hafi verið orsök þess að farið yrði í þessa innlimun í ráðuneytið, lagði til fleiri leiðir. Þá væri ég alveg tilbúin til að leita málamiðlana í þessu máli. Ég hef áður sagt í máli mínu að mér fyndist hæstv. ráðherra vera maður að meiri að sýna fram á að hann væri svo stór pólitíkus að hann gæti reynt að sætta þarna sjónarmið og koma til móts við gagnrýni og leita leiða til að ná þessu í þverpólitískri sátt. Svona mál eiga ekki að vera í stórum pólitískum ágreiningi heldur er þetta það sem er sómi okkar Íslendinga að standa vel að, þróunarsamvinnu, aðstoð við fátækustu meðbræður okkar í fátækum löndum. Auðvitað er skömm að því hve lítill hluti vergrar landsframleiðslu fer í þennan málaflokk yfir höfuð. Hann þyrfti að vera meiri. Hæstv. ráðherra hefur þurft að bakka út úr hugmynd um að hækka hlutfallið. Það virðist eiga að vera áfram sama hlutfall og verið hefur af vergri landsframleiðslu, 0, 21%.

Ég ætla ekki að gefast upp á að skora á hæstv. ráðherra að (Forseti hringir.) sýna nú djörfung og dug og taka þetta mál upp úr skotgröfunum sem hann hefur sjálfur komið málinu í með einstrengingslegum málflutningi.