145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf að byrja á því að leiðrétta fyrri skilning minn, sem var misminni, hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi um Þóri Guðmundsson í utanríkismálanefnd. Mig minnti að hann hefði talið alla þrjá möguleikana jafna sem hann nefnir í skýrslunni, en það er ekki rétt. Hins vegar tók hann fram að honum þættu tveir af þessum kostum koma til greina í meginatriðum. Annar þeirra er sá að flytja ÞSSÍ í utanríkisráðuneytið og leggja stofnunina niður. Hinn er að styrkja ÞSSÍ og færa verkefni frá ráðuneytinu til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og hafa þá ráðuneytið frekar í eftirlitshlutverki. Þriðji kosturinn, sem Þóri Guðmundssyni leist reyndar ekki á, er óbreytt staða með smávægilegum tilflutningi á verkefnum og því um líku.

Hv. þingmaður er sjálfur fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra. Enginn virðist hafa mikið út á störf Þróunarsamvinnustofnunar að setja. Hún stendur við skuldbindingar sínar gagnvart fjárlögum. Hún vinnur gott starf, það virðist enginn ágreiningur vera um það. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi fara að núna ef hann stæði frammi fyrir svona ákvörðun: Mundi hann breyta einhverju? Ef svo er, hverju mundi hann breyta? Mundi hann styrkja ÞSSÍ og flytja þangað verkefni frá ráðuneytinu? Sömuleiðis langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig hugnast honum sú hugmynd að setja Þróunarsamvinnustofnun í utanríkisráðuneytið án þess að leggja hana niður? Það ku koma fram í rökstuðningi Þóris Guðmundssonar að aðrar þjóðir hafi gert það en það er einmitt það sem þær hafa gert, þ.e. þær hafa ekki lagt niður þessar stofnanir, heldur flutt þær í ráðuneytin, sem er að mínu mati annað mál. Ég velti fyrir mér hvort það sé einnig mat hv. þingmanns.