150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Nú liggur það fyrir klappað í stein að Ríkisútvarpið hefur markvisst og væntanlega meðvitað brotið lög um tveggja ára skeið. Upp úr um það kvað Ríkisendurskoðun endanlega í skýrslu sinni í stjórnsýsluúttekt um Ríkisútvarpið um daginn. Stjórn Ríkisútvarpsins greip til þess stórundarlega ráðs að segja að stofnunin hefði þurft að bíða eftir þessari niðurstöðu Ríkisendurskoðunar í 24 mánuði til að segja til um hvort hún ætti að fara að lögum eða ekki. Ríkisendurskoðun svaraði strax: Það þurfti ekkert að bíða eftir okkur. Það hefur legið óyggjandi fyrir frá upphafi að Ríkisútvarpinu bar að fara að þessum lögum.

Svo gerist það núna síðast að þegar Ríkisútvarpið auglýsir stöðu útvarpsstjóra tilkynnir það um þá ákvörðun sína að halda leyndum nöfnum umsækjenda. Ef það er ekki beinlínis brot á þeim upplýsingalögum sem Ríkisútvarpinu ber að fara eftir er það a.m.k. brot á þess eigin skilningi á upplýsingalögum og stefnuyfirlýsingu sem þangað til í gær var að finna á heimasíðu RÚV.

Hvað gerði RÚV þegar því var bent á þetta í fjölmiðlum í gær? Breytti það þá þessari röngu ákvörðun sem það tók miðað við eigin skilning og eigin stefnuyfirlýsingu? Nei, þá var stefnuyfirlýsingin tekin út af heimasíðunni sem og þessi skilningur en staðið var við hina röngu ákvörðun. Þessi síendurtekni vandræðagangur og vanhæfni af hálfu stjórnar Ríkisútvarpsins skapar vantraust. Af þeim ástæðum tel ég íhugunarefni fyrir stjórn Ríkisútvarpsins hvort hún ætti ekki í ljósi stöðunnar að víkja. Ekki treysti ég henni til að taka þá ákvörðun að ráða nýjan útvarpsstjóra miðað við alla þessa himinhrópandi vanhæfni og vandræðagang. Ef hún kýs ekki að gera þetta er það íhugunarefni fyrir menntamálaráðherra hvort hann ætti að boða til hluthafafundar (Forseti hringir.) og víkja stjórninni.