150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að stjórnmálamenn eigi ekki, yfir höfuð, bara aldrei, að koma að neinni ákvörðun um hvað séu eðlilegar og réttlátar bætur. Við setjum það í hendur á öðru fólki sem er sérstaklega fengið til þeirra verka og metur það út frá einhverjum alvörugögnum, alvörusjónarmiðum, málsástæðum o.s.frv. Þess vegna er ég alveg sammála. Ég tel að svona mál eigi að leysa fyrir dómi með ýtrustu kröfur. Annað vefst fyrir mér. Hv. þingmaður hefur gert það hvað eftir annað í umræðunni að koma máli Erlu Bolladóttur inn í þetta mál. Mönnum kann að finnast eitthvað um það. En nú var það mál ekki endurupptekið. Það er engin sýknukrafa. En vill þingmaðurinn að stjórnmálamenn fari að taka það einhvern veginn með líka? Mér finnst það í mótsögn við fyrri málflutning hv. þingmannsins ef það á einhvern veginn að vera hér. Hún mun þá væntanlega gera kröfu um bætur, rökstyðja hana, höfða mál og menn bara taka til varna. Ég ætla enn síður að fara að blanda mér í mál Erlu Bolladóttur á þessu stigi fremur en þeirra sem voru sýknaðir af kröfu ríkissaksóknara.

Ég verð líka að segja það í lokin að mér finnst fullkomlega óeðlilegt við þessar aðstæður að stjórnvald ákveði endurupptöku og stjórnvald ákveði að krefjast sýknu. Dómstóll getur ekki brugðist við því öðruvísi en að sýkna. Þó að hann kunni að telja að tilefni hafi verið til að endurtaka málið er það ekki það sama og að hann sé að samþykkja sýknu. (Forseti hringir.) Ef sýknu er krafist getur dómstóllinn ekki gert neitt annað en sýknað.