150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar, er alla vega ekki enn sannfærður um að þetta mál brjóti í bága við stjórnarskrá. Aftur á móti, hvað varðar þinglega meðferð mála í sambandi við stjórnarskrá, hef ég almennt aðhyllst nýja stjórnarskrá þar sem er kveðið á um svokallaða Lögréttu. Lögrétta, samkvæmt frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, felur í sér að einhver ákveðinn hópur, ákveðinn hluti þingmanna, mig minnir að þeir séu níu, ég þori ekki að veðja upp á það, geti krafist þess að mál sem hér eru til umfjöllunar fari fyrir Lögréttu og hún kveði úr um það hvort málin standist stjórnarskrá eða ekki. Ekki má samþykkja málið á Alþingi fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir. Hvað gerist ef Alþingi samþykkir lög sem brjóta gegn stjórnarskrá? Ég hugsa að það fari eftir því hvernig það lýsir sér. En það er annað sem kæmi til greina og ég held reyndar að gæti verið betri leið sem er að hafa einhvers konar stjórnlagadómstól sem hægt er að vísa málum til til að tryggja það fyrir víst fyrir fram. Hérna er meira í tísku að gera hlutina eftir á, láta á hlutina reyna og sjá hvort eitthvað klikki, það er eins og margt annað í íslenskri stjórnskipan eitthvað sem mér er ekki mjög vel við og ég myndi vilja sjá einhverjar umbætur á.

Ég veit svo sem ekki hvar ég myndi endanlega setja atkvæði mitt að lokinni þessari umræðu um málið þótt ég hafi stutt það á þeim tíma sem það var tekið úr nefnd. En mér finnst spurningin alveg þess virði. Ég hef alla vega ekki heyrt sannfærandi rök fyrir því að málið brjóti í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar, verð ég að segja eins og er. Ég sé ekki mótsögnina í því að ríkið hafi heimild til að greiða miskabætur jafnvel þó að það sé líka á könnu dómstóla að gera það. Ef svo er þá er það auðvitað sjálfstæð ástæða fyrir því að greiða atkvæði gegn málinu. En þá finnst mér að það sé athugun sem ætti að fara fram almennilega fyrst.