150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta (vistvæn ökutæki o.fl.). Frumvarpið er á þskj. 596 og er 432. mál þingsins. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt og lögum um tekjuskatt sem hafa það að markmiði að greiða enn frekar fyrir orkuskiptum í samgöngum fyrir tilstilli efnahagslegra hvata í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna í þeim efnum. Með frumvarpinu eru lögð til metnaðarfull markmið stjórnvalda í formi nýrra tímabundinna skattaívilnana til að greiða gang vistvænna ökutækja í samgöngum með tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, auk þess sem lagðar eru til breytingar á núgildandi ívilnunum.

Ég myndi vilja halda til haga sömuleiðis hér þeim efnahagslega ávinningi sem af því getur hlotist fyrir okkur Íslendinga að þurfa ekki vegna orkumála fyrir samgöngur í landinu að byggja á innfluttum orkugjöfum. Tillögur frumvarpsins eiga m.a. rót sína að rekja til stjórnarsáttmálans frá nóvember 2017 og aðgerðaáætlunar um orkuskipti sem fram kom í þingsályktun ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um aðgerðaáætlun um orkuskipti sem samþykkt var á Alþingi 31. maí 2017. Í þingsályktuninni var ráðherra m.a. falið að vinna að orkuskiptum með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa sem hafi í för með sér orkusparnað, aukið orkuöryggi, gjaldeyrissparnað, minni staðbundna mengun og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Með orkuskiptunum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og nýrri atvinnustarfsemi sem byggist á sjálfbærri þróun.

Þá eiga tillögur frumvarpsins jafnframt rætur að rekja til aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum 2018–2030 þar sem fram kemur það undirliggjandi markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamkomulagsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Einn þáttur þess er að aukið verði verulega við innviði vegna rafvæðingar í samgöngum með skattalegum hvötum.

Verður nú vikið að einstökum tillögum frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á gildandi bráðabirgðaákvæði 24 í lögum um virðisaukaskatt þar sem kveðið er á um ívilnanir frá virðisaukaskatti vegna kaupa eða innflutnings á rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum upp að ákveðnu hámarki að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í frumvarpinu er nú lagt til að gildistími virðisaukaskattsívilnana samkvæmt ákvæði til bráðabirgða 24 verði framlengdur til loka árs 2023. Í því sambandi er lagt til að eingöngu svokallaðar hreinorkubifreiðar, þ.e. rafmagns- og vetnisbifreiðar, skuli falla undir ákvæðið en ekki tengiltvinnbifreiðar sem bæði eru búnar sprengihreyfli og rafmótor og geta þannig bæði nýtt jarðefnaeldsneyti og rafmagn sem orkugjafa.

Breytingunni er þannig ætlað að greiða gang þeirra hreinorkuökutækja sem nú falla undir ákvæðið og auka fyrirsjáanleika atvinnurekstraraðila og annarra vegna kaupa og sölu á slíkum bifreiðum. Breytingin er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda um orkuskipti en í henni er stefnt að því að auka hlutdeild innlendra, endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldsneytis.

Í öðru lagi og samhliða framlengingu á gildistíma ívilnana fyrir hreinorkubifreiðar sem ég greindi frá er lagt til að fjárhæðarmörk heimildar til niðurfellingar virðisaukaskatts og undanþágu frá skattskyldri veltu við kaup á rafmagns- eða vetnisbifreiðum verði hækkuð í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda um orkuskipti. Þannig er lagt til að núverandi fjárhæð undanþágu frá skattskyldri veltu verði frá 1. júlí 2020 6,5 milljónir í stað 6 milljóna og að samhliða þeirri breytingu verði fjárhæðarmörk niðurfellingar virðisaukaskatts við tollafgreiðslu rafmagns- og vetnisbifreiða hækkuð úr 1.440.000 kr. í 1.560.000 kr. Breytingunni er ætlað að greiða enn frekar gang hreinorkuökutækja í samgöngum.

Í þriðja lagi er lagt til að virðisaukaskattsívilnun fyrir tengiltvinnbifreiðar falli niður eftir 31. desember 2020 líkt og núverandi lagaákvæði ber með sér. Breytingin er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda en þar kemur fram að ívilnunin eigi ekki að gilda lengur en til ársins 2020, en slíkar bifreiðar hafa notið ívilnunar frá miðju ári 2012 þegar bráðabirgðaákvæði 24 var fyrst lögfest.

Ívilnun vegna tengiltvinnbifreiða hefur stuðlað að uppbyggingu þjónustuinnviða vegna orkuskipta, m.a. hraðhleðslustöðva á opnum svæðum, og gert það að verkum að innviðir hafa byggst hraðar upp en ella. Þegar litið er til mikillar aukningar í innflutningi og skráningu tengiltvinnbifreiða síðustu ár í umferð má hins vegar ætla að tengiltvinnbifreiðar verði orðnar vel samkeppnishæfar í lok árs 2020, m.a. þegar litið er til núverandi þjónustuinnviða og fyrirhugaðrar uppbyggingar á innviðum í uppsetningu hleðslustöðva víðs vegar um landið.

Í fjórða lagi er lagt til að bifreiðum sem falla undir ákvæði til bráðabirgða 24 í lögum um virðisaukaskatt verði fjölgað. Fjöldi bifreiða í hverjum og einum orkuflokki er nú 10.000 bifreiðar. Í frumvarpinu er lagt til að rafmagns- og vetnisbifreiðum verði fjölgað í 15.000 bifreiðar og tengiltvinnbifreiðum í 12.500. Miðað hefur verið við að ef um 5% bifreiðaflotans nýti tiltekinn orkugjafa skapist forsendur til rekstrar þjónustuinnviða á forsendum einkamarkaðar. Skráðar bifreiðar á Íslandi í umferð í lok árs 2018 voru 255.000. Ef miðað er við að 12.500 tengiltvinnbifreiðar njóti skattaívilnunar í stað 10.000, líkt og nú er lagt til, nemur það um 5% þeirra af skráðum bifreiðum í lok síðasta árs.

Í fimmta lagi eru lagðar til nýjar metnaðarfullar ívilnanir í formi niðurfellingar virðisaukaskatts eða undanþágu frá skattskyldri veltu upp að ákveðnu hámarki vegna innflutnings eða skattskyldrar sölu bifhjóla. Þetta eru sem sagt bifhjól sem knúin eru rafmagni eða ganga fyrir vetni, létt bifhjól sem knúin eru rafmagni og reiðhjól, þ.e. hefðbundin, órafknúin reiðhjól, rafmagnsreiðhjól og rafmagnshlaupahjól. Til að gæta samræmis er gert ráð fyrir að hreinorkubifhjól skuli líkt og fólksbifreiðar og fjórhjól njóta sambærilegrar ívilnunar og slík ökutæki.

Gert er ráð fyrir að hámark niðurfellingar virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum verði 96.000 kr. en 48.000 kr. fyrir reiðhjól en þess ber að geta að sú upphæð var tvöfölduð eftir umsagnir sem bárust um málið í samráðsgátt stjórnvalda. Rafmagnsreiðhjól sem kostar þannig í dag 496.000 kr. með virðisaukaskatti mun því eftir breytinguna, að öðru óbreyttu, kosta 400.000 kr. Þá mun órafknúið, hefðbundið reiðhjól sem kostar í dag 248.000 kr. með virðisaukaskatti kosta 200.000 kr. eftir breytingarnar að öllu öðru óbreyttu.

Ívilnanir vegna kaupa á léttum bifhjólum og reiðhjólum eru til þess fallnar að draga úr bílaumferð og fjölga í hópi þeirra sem ferðast með vistvænum hætti. Þannig stuðla slíkar ívilnanir að umhverfisvænum samgöngum og samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum. Áhersla er lögð á stuðning við rafmagnsreiðhjól þar sem rannsóknir hafa leitt í ljós að reiðhjól sem búin eru rafknúinni hjálparvél geti verið staðkvæmdarvara fyrir bifreiðar og leitt til þess að fólk velji slíkan samgöngumáta frekar en bifreiðar. Ég myndi að sjálfsögðu auk þess vilja nefna almenn lýðheilsusjónarmið að baki því að draga úr skattlagningu á hefðbundin, órafknúin reiðhjól. Við þekkjum það öll að á höfuðborgarsvæðinu og víðar stunda margir hreyfingu með því að nota hvort sem er fjallahjól, götuhjól eða önnur hjól, auk þess sem margir fara þannig ferða sinna til og frá vinnu eða hreinlega til að komast á milli staða. Ég held að vel megi bæta við þau rök sem ég hef hér talið upp almennum lýðheilsusjónarmiðum til að styðja við þær breytingar sem felast í skattlagningu á þessum fararskjótum.

Í sjötta og sjöunda lagi er lagt til að núverandi heimild til að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við uppsetningu hleðslustöðva í eða við íbúðarhúsnæði verði aukin upp í 100%. Samhliða er lagt til að byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis verði veitt heimild til endurgreiðslu þess virðisaukaskatts sem fallið hefur til vegna kaupa á hleðslustöðvum í eða við íbúðarhúsnæði. Í dag liggur fyrir að margir íbúðareigendur og húsfélög í fjöleignarhúsum veigra sér við að fara í framkvæmdir við uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir íbúa vegna þess kostnaðar sem því fylgir. Með breytingunni er ætlunin að bregðast við þessu og greiða fyrir uppsetningu hleðslustöðva í og við íbúðarhúsnæði, svo sem í fjöleignarhúsum, með fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts bæði af vinnu og efni við slíka uppsetningu.

Í áttunda lagi er lagt til að útleiga handhafa leyfa til að reka ökutækjaleigu, eignaleigu eða fjármögnunarleigu á þeim bifreiðum sem falla undir bráðabirgðaákvæði 24 í lögum um virðisaukaskatt, þ.e. vistvænum bifreiðum, verði undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu. Ljóst er að í dag er útleiga á rafmagns- og tengiltvinnbifreiðum afar takmörkuð. Breytingunni er því ætlað að hvetja bílaleigur og þá aðila sem hafa með höndum eignaleigu eða fjármögnunarleigu til að leigja út þau vistvænu ökutæki sem falla undir bráðabirgðaákvæði 24 í lögum um virðisaukaskatt. Þannig er bílaleigum gert kleift að lækka leiguverð vistvænna bíla í gjaldskrám sínum sem nemur virðisaukaskattinum.

Í níunda lagi er lagt til að heimilt verði við innflutning eða sölu á hópbifreiðum í almenningsakstri sem nota eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni sem orkugjafa að fella niður virðisaukaskatt eða telja hann til undanþeginnar veltu. Það er engum vafa undirorpið að orkuskipti í almenningssamgöngum skipta miklu máli við að ná markmiðum stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en losun koltvísýrings vegna vegasamgangna er stór hluti af beinum skuldbindingum Íslands vegna Parísarsamkomulagsins.

Í dag falla hópbifreiðar undir bráðabirgðaákvæði 24 í lögum um virðisaukaskatt og njóta þannig ívilnunar líkt og aðrar fólksbifreiðar. Hópbifreiðar fá hins vegar hlutfallslega lága niðurfellingu en verð þeirra er mun hærra en almennra fólksbifreiða. Í frumvarpinu er því lagt til að umhverfisvænar hópbifreiðar í almenningsakstri fái fulla ívilnun vegna innflutnings og skattskyldrar sölu þar til 100 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar á ökutækjaskrá.

Í tíunda og síðasta lagi er lagt til að atvinnurekstraraðilum verði heimilað að fyrna að fullu á kaupári niður að niðurlagsverði eignar ökutæki sem nýta eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni, að því gefnu að nýorkuökutæki sé að öllu leyti nýtt í skattskyldri starfsemi lögaðila eða sjálfstætt starfandi einstaklings. Miklu skiptir að auka hvata atvinnurekstraraðila til orkuskipta í samgöngum og stuðla þannig að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Ákvæði frumvarpsins um flýtifyrningu er sérstaklega ætlað að hvetja til orkuskipta í atvinnustarfsemi með að gefa fyrirtækjum kost á nýrri tegund af skattalegu hagræði af því að velja nýorkuökutæki.

Virðulegur forseti. Það er talsverð óvissa, verð ég að segja, um umfang þeirra fjárfestinga heimila og fyrirtækja sem hér um ræðir en í heild má áætla að áhrif tillagna frumvarpsins á tekjuhlið ríkisins verði lækkun tekna um allt að 1,5 milljarða á árinu 2020 og allt að 2,5 milljarða á árunum 2021–2023. Tillögur í frumvarpinu draga jafnframt úr útgjöldum sveitarfélaga til fjárfestinga í nýorkuökutækjum og hafa því jákvæð áhrif á afkomu sveitarfélaga sem má áætla allt að 200 millj. kr. árlega á árunum 2020–2023.

Hinar fjölbreyttu tillögur frumvarpsins beinast að því markmiði að hraða orkuskiptum í samgöngum á landi og tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með því að koma til móts við heimili og fyrirtæki með margvíslegum hætti. Það nýmæli að veita hvers kyns hjólum ívilnun hefur auk þess þau hliðaráhrif, eins og ég hef hér rakið, að hvetja til aukinnar útiveru og hreyfingar, bæta lýðheilsu og draga úr bílaumferð, a.m.k. að gera þeim það léttara fyrir pyngjuna að velja þann lífsstíl.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.