150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig hafa fært rök fyrir því í máli mínu að þessar breytingar muni hjálpa til. Við getum ekki svarað því fyrir fram. Hagfræðin er ekki raunvísindi, hún er félagsvísindi og getur veitt vísbendingar um það hvað fólk gerir ef tilteknir hvatar eru til staðar. Það er ekki hægt að setja fyrir fram nákvæma hausatölu á það hversu margir munu kaupa sér rafbíl, hversu margir munu kaupa sér hleðslustöð, hversu hratt það gerist og hversu margar hleðslustöðvar hafi verið settar í fjölbýlishús árið 2025. Við vitum hins vegar að með réttum hvötum höfum við áhrif á m.a. kauphegðun. Ég hef nefnt hér í dag að aðferðafræði okkar við að hafa t.d. há vörugjöld á bíla sem menga meira, álögur á eldsneyti og ívilnanir í virðisaukaskatti og vörugjöldum fyrir vistvænar bifreiðar höfum við náð þeim árangri að vera í 2. sæti og stundum hef ég heyrt tölurnar í 1. sæti fyrir (Forseti hringir.) fjölgun vistvænna bifreiða í flotanum. Það er árangur.