150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að hrósa því sem vel er gert. Það er ánægjulegt að sjá að verið sé að horfa til fleiri þátta eins og að fella niður virðisaukaskatt á reiðhjólum og rafmagnshjólum upp að ákveðnu marki. Það stuðlar að enn meiri hvata til breyttra venja í samgöngum. Ég staldra hins vegar alltaf aðeins við það, þegar ég hlusta á hæstv. fjármálaráðherra og röksemdafærslu fjármálaráðuneytisins í þessum málum, að undir niðri blundi óttinn við að efnahagslegir hvatar virki of vel, að við náum jafnvel of góðum árangri og þess vegna séum við alltaf að slá einhverja varnagla eins og t.d. að bifreiðar sem njóta ívilnunar séu ekki fleiri en x. Ég hefði haldið að við ættum að fagna því ef árangurinn væri meiri en raun ber vitni.

Fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra er sú, í ljósi þess að stærstur hluti vistvænna bíla á undanförnum árum hafa verið tengiltvinnbílar, hvort það sé kannski fullbratt að ætla að afnema þá ívilnun á aðeins einu ári.