150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Þótt ég skilji röksemdafærsluna þá hygg ég að við séum enn talsvert langt frá þeim tímapunkti að við þurfum að hafa áhyggjur af of miklum árangri. Við þurfum þvert á móti að gera miklu meira í þeim efnum. En það snýr kannski að seinni spurningu minni til hæstv. ráðherra. Nú er ljóst að þegar kemur að orkuskiptum í almenningssamgöngum höfum við mikið að sækja í ávinningi í orkuskiptum, einn rafmagnsstrætó er á við 50 eldsneytisbíla í umferðinni, hið minnsta. Bara það að skipta út flotanum eins og hann er hjá strætó í dag væri á við að taka 6–7 þús. fólksbifreiðar úr umferð, sem ganga þá fyrir jarðefnaeldsneyti. Ég fagna því vissulega sem þarna er gert en þetta eru engu að síður mjög hæg orkuskipti í almenningssamgöngum. Ég spyr hvort komið hafi til álita að niðurgreiða enn frekar eða jafnvel úrelda með einhverjum hætti gegn greiðslu eldri fólksflutningabifreiðar til að hraða orkuskiptum í almenningssamgöngum.