150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er með áframhaldandi vangaveltur eftir andsvör áðan en fjármálaráðherra talaði um hagfræðina, hvernig hún væri félagsvísindi og það væri ekki hægt að sjá fyrir um allt o.s.frv., sem er alveg hárrétt. En við gerum hins vegar þá kröfu að stjórnvöld setji sér markmið og sýni þau markmið. Jafnvel þó að hagfræðin lendi síðan einhvers staðar annars staðar í plús eða mínus þá sjáum við það svart á hvítu hverju stjórnvöld ætluðu sér að ná með notkun á því almannafé sem þau leggja til þeirrar stefnu.

Þetta er grundvallaratriðið í lögum um opinber fjármál sem við höfum rætt hérna að undanförnu í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og þetta frumvarp er einmitt ein af þeim aðgerðum sem taldar eru upp í fjármálaáætlun sem er ætlað að ná markmiðum stjórnvalda. En af því að markmiðum stjórnvalda er gríðarlega ábótavant, eins og ég talaði um, ekki í samræmi við lög um opinber fjármál, þá getum við ekki metið það á meðan lögin eru í gildi, þangað til að þau ná markmiðum sínum, hvort þau stefni í rétta átt eða ekki, hvort það vanti meira, hvort það sé kannski ofgert eða hvort þetta sé allt í lagi, hvort ábatinn sé meiri eða minni og þar fram eftir götunum.

Ég segi þetta því að þetta er rosalega mismunandi. Það er allt í lagi að setja sér markmið sem nást ekki, það er í fína lagi. Við eigum ekki að gagnrýna það á háfleygum nótum í þingsal af því að við eigum að sjá það með ágætum fyrirvara hvort markmiðið sé að nást eða ekki. Og þá getum við gripið til aðgerða til að breyta, annaðhvort með því að segja að þetta hafi verið erfiðara og flóknara dæmi en við gerðum ráð fyrir og það sé til fullt af gögnum sem sé hægt að leggja til hvað það varðar eða þá að fara í auknar aðgerðir af því að ávinningurinn er mun meiri af því að ná settum markmiðum en að ná þeim ekki.

Mér finnst við ekki enn þá vera í réttum takti hvað varðar lög um opinber fjármál. Það sýnir sig dálítið í framlagningu á þessu máli. Það er vissulega farið yfir ákveðna þróun hérna á bls. 6 um fjölda nýskráninga fólksbifreiða eftir orkugjafa; bensín, bensín/metan, bensín/rafmagn og alveg niður í rafmagn og vetni/rafmagn. Það er áhugavert að sjá einmitt í samanburði við þessa skýrslu sem ég nefndi áðan um milljón tonn, hvað þarf til til þess að standa undir þeim skuldbindingum sem við höfum gert. Í þeirri skýrslu er þessu einfaldlega skipt upp: Við þurfum að ná 100.000 útblásturslausum bifreiðum fyrir árið 2030 til að standa undir þeim skuldbindingum, alla vega miðað við að ná þessum milljón tonnum. Er það raunhæft markmið? Er það eitthvað sem við ætlum okkur að ná? Ef við segjum nei, við ætlum bara að ná 75.000, þá þurfum við að gera betur annars staðar. Það er umræðan sem við ættum að vera í hérna. Í þessari aðgerð ættum við að sjá fyrir næstu ár hverjar eru væntar tölur fram að t.d. 2030 til að ná þeim markmiðum, sem ættu að vera markmið stjórnvalda ef það á að standa við þessar skuldbindingar. Við sjáum strax árið 2020 og 2021 hvernig okkur miðar í þá átt. Ef við erum undir því viðmiði er hugsanlega til rökstuðningur fyrir því. Já, það var kannski ofáætlað fyrir þessi ár en við búumst við því að tölurnar breytist á næstu árum af því að nú er komið víðtækara net af hleðslustöðvum t.d. og orðinn meiri hvati fyrir fólk til að grípa til þessa ráðs og við sjáum verðfall á mörkuðum, eitthvað því um líkt, sem gerir það að verkum að bifreiðarnar eru ódýrari, það ætti að leiða til hærri talna en gert var ráð fyrir á árunum þar á eftir. Ef við sjáum engar breytingar í kjölfarið þurfum við að grípa til frekari aðgerða. Þannig ætti umræðan að vera en við fáum það ekki á blað af því að stjórnvöld setja ekki þessi markmið fram í fjármálaáætluninni eins og á að gera.

Þess vegna er mjög flókið að eiga samræður um aðgerðir eins og eru hérna og um fjármálaáætlun og fjárlög eins og þau leggja sig, af því að umræðan á að snúast um stefnu stjórnvalda, um þær kostnaðar- og ábatagreiningar sem þar fylgja og hvort aðgerðirnar sem eru lagðar til til að ná þeim markmiðum séu nægilega öflugar eða hvort það séu til aðrar aðgerðir sem kosta minna eða eru auðveldari. Þannig fáum við valmöguleika til að tala um í staðinn fyrir að grípa til hentugra kennisetninga um að framboð og eftirspurn ráði þessu og við firrum okkur algerlega ábyrgð á því að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og uppfylla t.d. alþjóðaskuldbindingar um loftslagsmál, svo ekki sé talað um réttindi fólks gagnvart hinu opinbera og svartíma úrskurðarnefnda og ýmislegt svoleiðis. Við ættum að setja okkur ákveðin markmið líka um svartíma úrskurðarnefnda, málsmeðferðartíma og þess háttar. Þetta er nefnilega allt keimlíkt, okkur vantar að tengja þær aðgerðir sem eru lagðar til við þau markmið sem stjórnvöld setja sér, sérstaklega að tengja þær við þá fjármuni sem eru lagðir til þeirra aðgerða. Einungis þannig getum við metið hvort það var ávinningur af því að velja eina aðgerð umfram aðra. Það er á þeim nótum sem við ættum að stunda stjórnmál að mínu mati og lög um opinber fjármál leggja í raun línurnar hvað það varðar. En við erum ekki að praktísera það akkúrat eins og er, virðulegi forseti.

Eins ágætlega og þetta frumvarp lítur út þá veit ég ekki hver ávinningurinn verður af því. Ég veit ekki einu sinni hver væntur ávinningur er af því. Ef ég veit ekki hver er væntur árangur af aðgerðum stjórnvalda get ég ekki spurt mig eftir á: Var þetta góð aðgerð eða ekki? Ég sé ekki muninn á því hvernig þróunin hefði orðið án þessara breytinga. Það er grunnsviðsmynd. Við erum alltaf að leggja fram grunnsviðsmynd og ef við gerum þetta breytist sviðsmyndin í áttina að þessu, í áttina að markmiðum stjórnvalda á einn eða annan hátt. Ef við förum í einhverja aðra aðgerð breytist sviðsmyndin á annan hátt. Á þeim nótum sagt lítur þetta allt ágætlega út en þegar allt kemur til alls erum við einfaldlega að giska á að við náum einhverjum árangri. Við vitum ekki hvort við náum þeim árangri sem við þurfum að ná, en við náum líklega einhverjum árangri. Mér finnst ekki nógu gott, ekki miðað við þau lög sem við erum að reyna að starfa eftir, að við þurfum að giska á að við séum að ná þeim markmiðum sem við eigum að ná.