150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[18:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Ég mun sannarlega taka metanið upp í hv. nefnd en það er einmitt sérstaklega mikilvægt að hafa, eins og hv. þingmaðurinn kom inn, stóra bíla með stór tæki í huga. Það er lengra í það að stórar vinnuvélar, stór tæki eins og almenningssamgöngutæki, strætó og önnur, verði þannig úr garði gerð að það sé auðvelt að nota risastórar rafhlöður á þau. Gröfur og vinnuvélar og þess háttar tæki myndu þyngjast býsna mikið með stóru batteríi, til að mynda, ef það ætti eitthvað að duga til að knýja þau áfram. En þá er einmitt gott að hafa í handraðanum orkugjafa eins og metan sem alla vega er innlendur orkugjafi og þrátt fyrir að metan sé kolefnaeldsneyti er það, eins og þingmaðurinn kom inn á, svo miklu verra sem gróðurhúsalofttegund en niðurbrotsefni þess eftir bruna, þ.e. koltvísýringur og vatn.