150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[18:14]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru margir angar á þessu máli. Einn þeirra er þjóðhagslegi ábatinn eða hagkvæmni þess að nota innlenda orkugjafa. Þegar ég var að skoða þetta fyrir einhverjum árum var innkaupsverðið á olíu og bensíni á fólksbíla landsmanna um 30–40 milljarðar. Það gæti verið 2–3% af gjaldeyristekjum ef við tökum það sem hlutfall. Það sýnir kannski svolítið breyturnar, en það er mikilvægt að benda á þetta. Fyrir 20–30 árum var þetta hlutfall kannski 10–15%, þannig að það hefði verið enn þá skemmtilegra að vera með innlenda orkugjafa á þeim tíma. En auðvitað styrkir þetta efnahag þjóðarinnar, þetta styrkir krónuna, okkar ágæta gjaldmiðil. Þetta hjálpar allt til í því samhengi.

Mín reynsla af því að hafa notað tengiltvinnbíl í fimm ár er sú að um 75% af tímanum, eða af keyrðum kílómetrum, eru á tengiltvinnbílnum þó að það séu ekki nema 40–50 km. Það er bara þessi daglegi akstur sem dugar að stinga í samband fyrir. Ég hef fulla trú á því að rafmagnsbílar séu næsta skrefið í dýrari bílum eins og t.d. ráðherrabílunum. Tengilbifreiðarnar eru svona milliskref, Volvo, Benz og þessir stóru framleiðendur, t.d. Volvo, segja bara: Allir bílar verða rafmagnsbílar eftir 2023 eða 2024. Það eru bara fjögur, fimm ár í það. Við eigum eftir að sjá gríðarlega breytingu á örskömmum tíma. Þá er líka verið að tala um að þessir bílar verða komnir á par við aðra bíla og verða sjálfsagt orðnir ódýrari en hefðbundnir bílar innan mjög fárra ára. Ég held að það sé mjög spennandi sem er að fara að gerast í þessu. Það er líka mikilvægt að hafa það í huga að 90–95% af hleðslu fer fram í heimahúsi. (Forseti hringir.) Við erum búin að gera heilmikið í því að byggja upp hleðslustöðvar á allra síðustu misserum og erum að gera meira, en þarna fer nú fram hleðslan á rafmagnsbílum.