150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 597, máli nr. 433. Hér er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, er lýtur að endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megintilgangur þess er að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem skrifað var undir 25. október sl. og bókun við samkomulagið sem skrifað var undir 26. nóvember sl.

Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016 sem var undirritaður þá, eins og nú, með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum og samþykki félagsmanna Landssambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands í atkvæðagreiðslu. Með samkomulaginu var fallið frá niðurfellingu heildargreiðslumarks sem kveðið var á um í samningnum og mun greiðslumark því gilda áfram út gildistíma sem viðmið vegna beingreiðslna. Þá verða viðskipti með greiðslumark leyfð að nýju frá og með árinu 2020 og munu þau byggja á tilboðsmarkaði sem er sama markaðsfyrirkomulag og gilti á árunum 2001–2016. Vissar takmarkanir verða á viðskiptunum sem verða útfærðar nánar í reglugerð. Aukin áhersla er lögð á loftslagsmál og í samkomulaginu kemur fram það markmið að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040.

Þá kemur fram að fyrirkomulag verðlagningar mjólkurafurða verði endurskoðað á grunni ákveðinna atriða og er áætlað að starfshópur skili tillögum eigi síðar en 1. maí 2020. Auk þess verði skipaður starfshópur sem mun hafa það hlutverk að fara yfir m.a. hugmyndir um aðlögunarsamninga og aukinn stuðning við minni bú og meta þörf á aðgerðum vegna svæða þar sem framleiðsla hefur dregist saman.

Rétt er að geta þess að áætlað var að atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda færi fram dagana 20.–29. nóvember. Atkvæðagreiðslu var hins vegar frestað af hálfu Bændasamtaka Íslands vegna óánægju ákveðins hluta bænda með það samkomulag sem gert var. Atkvæðagreiðslu lýkur þar af leiðandi ekki fyrr en 4. desember næstkomandi. Vegna þessa var fyrrgreind bókun gerð við samkomulagið. Hún kveður á um það m.a. að í janúar 2020 skuli framkvæmdanefnd búvörusamninga taka afstöðu til þess hvort setja skuli hámarksverð á greiðslumark á fyrsta markaði ársins með hliðsjón af markaðsaðstæðum.

Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til breytingar á 53. gr. laganna til samræmis við það sem samið var um í fyrrgreindu samkomulagi. Lagt er til að innlausn á greiðslumarki með ríkisábyrgð verði aflögð og að aðilaskipti á greiðslumarki fari fram í gegnum markað. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 54. gr. laganna sem kveða á um að öll aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur skuli fara fram á markaði. Þó sé heimil tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila og við ábúendaskipti eða breytingu skráningar ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða. Markaðsverð greiðslumarks verði grundvallað á jafnvægisverði, þ.e. því verði sem myndast þegar framboð magns er jafnt og eftirspurn, eða lægsta verði sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á. Hámark verði sett á það magn sem hægt er að kaupa á hverjum markaði, auk þess sem ráðherra verði heimilt að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga að setja hámarksverð á greiðslumark ef verðþróun á markaði verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti.

Hlutdeild framleiðanda má ekki nema hærra hlutfalli en 1,2% af árlegu greiðslumarki mjólkur og gert er ráð fyrir að nýliðar eigi forkaupsrétt að 5% af því greiðslumarki sem er til sölu á hverjum markaði. Ráðherra mælir svo nánar fyrir um framkvæmd markaðar með greiðslumark í reglugerð en þess má geta að drög að slíkri reglugerð hafa nú verið sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda.

Líkt og hér hefur verið rakið er markmið frumvarpsins fyrst og fremst að framfylgja samkomulagi um breytingar á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem skrifað var undir þann 25. október sl. Í samræmi við ákvæði gildandi samnings létu Bændasamtök Íslands fara fram atkvæðagreiðslu um það á árinu 2019 hvort kvótakerfið skyldi afnumið frá og með 1. janúar 2021 líkt og stefnt var að með þeim samningi sem í gildi hefur verið. Greiddu 89,4% mjólkurframleiðenda atkvæði með áframhaldandi kvótakerfi. Samkomulagið gerir því ráð fyrir að greiðslumark haldi sér sem kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Tilætluð áhrif þeirra breytinga á starfsumhverfi kúabænda sem lagðar eru til með frumvarpinu eru taldar stuðla að framþróun og nýsköpun í nautgriparækt. Í samkomulaginu er kveðið á um breytingar sem krefjast breytinga á gildandi búvörulögum og af því leiðir að því verður ekki framfylgt nema með setningu laga. Verði frumvarpið óbreytt að lögum kallar það ekki á aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur er einungis um að ræða tilfærslu fjármuna innan gildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni frumvarpsins. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.