151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur .

374. mál
[16:24]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta mál. Það eru liðin þrjú ár frá því að hlutfall fjármagnstekjuskatts var hækkað úr 20 í 22%. Það er fyrst núna sem þessi lagfæring kemur fram við endurskoðun á grunni skattsins. Betra er seint en aldrei, mjög gott. Mér sýnist þarna vera farin hófsamleg millileið sem nýtist öllu venjulegu fólki, almenningi í landinu, fólki sem hefur lagt til hliðar. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með að hið sjálfsagða réttlætismál, sem er skattlagning á því sem heitir frístundahús, í daglegu tali sumarhús, skuli vera færð til samræmis við skattlagningu á íbúðarhúsnæði þegar kemur að sölu. Mjög ánægjulegt. Það er búið að vera mikið baráttumál samtaka sumarhúsaeigenda um mjög langt skeið og óska ég þeim sérstaklega til hamingju og okkur öllum.