Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[15:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er alltaf gott að byrja á 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þegar verið er að ræða um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Nú var það tuggið ansi vel ofan í okkur í sjónvarpsseríu á liðnum vikum að framkvæmdin væri samt ekki svona, að framkvæmdin væri sú að það væri eignarhald, það væri fast eignarhald hvað sem stendur í lögum. Það hefur í rauninni enginn látið á það reyna hvort svo sé eða ekki. Það finnst mér mjög merkilegt frá sjónarhóli þess að við erum með frumvarp í höndunum um að bæta við tegundum í núverandi kerfi okkar þegar hæstv. ráðherra segir að bara í lok vikunnar sé von á tímalínu og áætlun um það hvernig eigi að breyta því á einhvern hátt. Ég hlakka mjög til að sjá í lok vikunnar hvernig hæstv. ráðherra sér það fyrir sér.

Í tilefni þessa frumvarps og þess almenna vandamáls sem við erum að glíma við í íslensku samfélagi að það þurfi að skapa meiri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið myndi ég vilja segja að kannski er rangt til orða tekið að það eigi að skapa meiri sátt. Við þurfum að tryggja sanngirni. Það er lykilatriði. Ef við höfum á tilfinningunni að það sé sanngjarnt kerfi þá er sjálfkrafa sátt um það. Tilfinningin núna er ekki að það sé sanngjarnt kerfi, langt í frá, heldur að það gangi einmitt gegn 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Af því tilefni er hér þetta æðislega spil, Útvegsspilið, sem er nefnt óviðjafnanlegt fræðslu- og skemmtispil. Þetta er endurútgáfa á spilinu frá 1977. Ég er einu ári eldri en þetta spil. Það er orðið ansi gamalt. Það er annað sem er merkilegt við þetta. Það er einmitt eldra en kvótakerfið. Það mætti leggja aðeins meira í. spilaspjaldið. Venjulega er það svona frekar þunnt á að líta en það kannski segir sitt um þetta umhverfi. Með þessu fylgir þetta fína fiskiplakat sem segir okkur hvaða stofnar eru hérna. Nú vantar heilan helling. Það er enginn makríll, sýnist mér en hann er orðinn stórstjarna hér við strendur núna. Þessi kassi er gríðarlega upplýsandi gagn um það hvað við erum að glíma við þrátt fyrir að spilið sé búið til fyrir tíma kvótakerfisins, gefið út 1977. Þetta er áður en við erum komin í það ástand sem við erum enn þá í. Formálann ritar núverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem er mjög áhugavert. Það er ýmislegt í þessu sem er — hvernig á ég að orða það? Þetta er jólagjöf ársins 1977 t.d. Það er mjög áhugavert. Þetta er svona skírskotun í þau vandamál sem við erum að glíma við enn þann dag í dag. Það er t.d. — það er alltaf gaman að fletta í reglunum en svo er minnsti hlutinn af þessu reglurnar — verið að tala um bankana.

Látum okkur nú sjá, alltaf gaman að fletta upp á því; Hallærisplanið og svona. Já, það er hægt að krota í þetta. Það er gaman að opna þetta og skoða. Þetta er nýtt, endurútgefið. Já, hérna er það, nákvæmlega. — Það er talað um að einnig sé hægt að ákveða hversu lengi fólk ætli að spila, hvernig leikurinn klárast. Það er hægt að ákveða að spila t.d. klukkustund í einu eða þangað til bankinn er tómur. Mér finnst það mjög áhugavert í ljósi sögunnar með þessa gömlu góðu banka, Útvegsbankann og svoleiðis. Tæmdist hann ekki einmitt? Spiluðum við ekki of lengi í þessu kerfi? Er það ekki einmitt vandamálið sem við erum að glíma við, kerfið sem við erum að segja að þurfi að mynda sátt um, ekki að það þurfi að vera sanngjarnt heldur að það þurfi að mynda sátt um það? Ég tel að það eigi einmitt að vera sanngjarnt. Við erum búin að spila of lengi í því. Bankinn er tómur. Þetta er endurútgáfa á spili sem er frá 1977 og ég held að það sé lýsing á því hvað við þurfum ekki að gera. Við þurfum ekki að endurútgefa þetta spil. Við þurfum ekki að endurútgefa kvótakerfið. Við þurfum að gera nýtt.