Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[15:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu. Ég held engu að síður að í ákveðnum grundvallaratriðum sé ég kannski ekki alveg sammála hv. þingmanni í öllu því sem hann sagði. Engu að síður benti hann á mjög athyglisverða þætti. Mér fannst náttúrlega undirliggjandi þegar var verið að ræða gengisfellingar að kröfu hagsmunaaðila að þá kallaði bara á mig: Krónan, íslenska krónan. Er ekki kominn tími til að skipta um gjaldmiðil? Það er bara aukasetning í þessu andsvari.

Hitt sem mér fannst áhugavert er að hann dregur fram og ég held og ég vil beina því til atvinnuveganefndar og þeirra sem eru í nefndinni að skoða nákvæmlega og hlusta á það sem Hafrannsóknastofnun setur fram. Ég heyrði ráðherra aðeins koma inn á það og ég held að skerpa þurfi á því að ef það á að fara að kvótasetja þessa þætti, sæbjúgun og sandkolann, þá verðum við að hafa skýr vísindaleg rök til þess. Það er ekkert ómögulegt að efnahagsleg rök búi á bak við svona kvótasetningu, það er ekkert að því, en það er betra að það sé blanda af þessu tvennu af því að efnahagslegu rökin ýta undir að það náist ákveðin hagræðing í greininni sem ýtir oft undir nýsköpun og ýtir oft undir betri nýtingu afla. Það er það sem reynsla okkar hefur sagt þó að það séu grundvallaratriði sem við erum kannski ósammála um í stóra kerfinu ef við förum inn á það.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Ef þetta mál verður afgreitt með þeim hætti út úr nefndinni sem hv. þingmaður er ósammála myndi hann engu að síður taka undir tillögu um að tímabinda (Forseti hringir.) samninga á þessum tegundum?