152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða.

349. mál
[16:01]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við vitum það öll og finnum að það er mikil umræða í samfélaginu í dag um þessa réttlætisspurningu í sjávarútveginum. Mér finnst ástæða til þess núna, bæði í tilefni af því að við erum komin með nýjan ráðherra, hæstv. matvælaráðherra, í þetta ráðuneyti og að komið er fram frumvarp þess ráðherra um afmarkaðan hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, að við ræðum aðeins heildarmyndina. Ég held að vel fari á því að gera það einmitt í samhengi við þá umræðu sem á sér stað í samfélaginu og í samhengi við þá umræðu sem er hávær núna, en er svo sem stöðug í íslensku samfélagi, um það hver ítök stórútgerðar eru í íslensku samfélagi. Mig langaði til að gera það fyrst í samhengi við stjórnarskrána okkar og kannski líka í samhengi við hlutverk stjórnmálanna, sem er auðvitað að verja hagsmuni almennings.

Í stjórnarskrá eru skráðar heilögustu reglur samfélagsins, grundvallarreglurnar sem öll önnur lög þurfa að standast. Þegar hagsmunirnir eru jafn miklir og almennir og á við um auðlindir landsins þá er ástæða til að fjalla um þær í stjórnarskránni sjálfri og ramma þá inn þær meginreglur sem stjórnvöld verða að virða við alla aðra lagasetningu um auðlindanýtingu. Við sem hér störfum vitum og þekkjum þá sögu að í gegnum tíðina hafa verið lögð fram allnokkur frumvörp þar sem gert er ráð fyrir auðlindaákvæði. En mig langaði til að ræða um það frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra lagði hér fram á síðasta þingi því að þar fannst mér hrópa á mann hvað það var sem ekki stóð í ákvæðinu. Frumvarpið notaði orðið þjóðareign og talaði um orðið þjóðareign en án þess þó að gefa hugtakinu þjóðareign raunverulegt inntak og raunverulega merkingu. Það er gert með því að nefna að rétturinn til að nýta þjóðareignina sé tímabundinn og með því að nefna gjaldtökuna, að greiða þurfi eðlilegt gjald fyrir. Í frumvarpi forsætisráðherra var talað um að í lögum ætti að kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar en sú er staðan í dag. Hin almennu lög fjalla um þetta. Í fiskveiðistjórnarlögunum er kveðið á um það og við þekkjum hverju það hefur skilað. Þetta sagði mér að viljinn til breytinga var með frumvarpinu mjög lítill því að þetta orðalag hefði haft í för með sér og styrkt í sessi óbreytt ástand fyrir almenning og óbreytt ástand fyrir stórútgerðina. Frumvarpið var þögult um stærstu pólitísku spurningarnar, þögult um þá þætti sem mestu máli skipta. Ég ætla ekki að segja að þaggað hafi verið niður í því en það var a.m.k. þögult um að mæta ákalli þjóðarinnar um eðlilegar leikreglur hvað varðar sjávarauðlindina, þögult um réttlæti í sjávarútvegi.

Frú forseti. Þó að við séum hér með frumvarp sem lýtur að afmörkuðum þáttum þá eru alltaf undirliggjandi þessar grundvallarspurningar að baki. Ég ætla að leyfa mér að segja að undirliggjandi sé líka bara sár í þjóðfélaginu sem ekki grær vegna þess að niðurstaðan gengur fram af réttlætiskennd almennings. Mig langar til að rifja upp orð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, með leyfi forseta, sem vöktu mikla athygli fyrir ekki svo löngu síðan þar sem hann sagði um ástandið á Íslandi að því væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það væri meiri háttar mál að lenda upp á kant við þá. Við þekkjum þessi orð og þau vöktu gríðarlega athygli. Þar var seðlabankastjóri m.a. að vísa til þess að opinberir starfsmenn sem vinna við eftirlit í þágu þjóðarinnar hafa lent í því að stórfyrirtæki kæri þá persónulega vegna starfa sinna fyrir almannahag. Flestir geta séð valdaójafnvægið í þeim leik og að slíkar aðgerðir þjóni þeim tilgangi að taka þróttinn úr almannahagsmunagæslunni til að styrkja sérhagsmunina. Þetta voru orð eins æðsta embættismanns þjóðarinnar og orðin vöktu athygli vegna þess. Og þetta voru orð sem féllu í umfjöllun um hvernig forsvarsmenn Samherja höfðu farið fram. Þarna var auðvitað ekkert verið að færa þjóðinni glænýjan sannleika. Það skipti bara máli hver það var sem orðin flutti og þjóðin tengdi.

Eins og ég nefndi áðan vantaði í frumvarp hæstv. forsætisráðherra að undirstrika þar mjög rækilega í orðalagi ákvæðisins sjálfs að rétturinn til nýtingar sé tímabundinn og að eðlilegt gjald komi fyrir nýtinguna. Þetta hefur lagalega þýðingu. Þetta hefur pólitíska þýðingu. Þetta hefur samfélagslega þýðingu. Ef stjórnarskráin er skýr um það að þjóðareignina eigi að varðveita og verja þannig að bara séu gerðir tímabundnir samningar um nýtingu þá getur löggjafinn, þá getur ríkisstjórnin á hverjum tíma, þá getur Alþingi ekki farið gegn þeirri reglu. Þá verður ekki hægt að afhenda sjávarauðlindina nema með tímabundnum samningum. Þetta er það atriði sem í mínum huga skiptir öllu máli í hinu pólitíska og lagalega samhengi og myndi framkalla annað andrúmsloft í samfélaginu en er í dag. Mér hefði fundist að útgerðin sjálf ætti að taka undir, að útgerðin sjálf ætti að nálgast málið þannig að hún sé í leit að lausninni með stjórnmálunum en sitji ekki bara á hliðarlínunni. Það er áhugavert hversu mikil tregða er við þetta því að tímabinding réttinda, réttinda til aðgangs að takmörkuðum gæðum, að náttúruauðlindum í þjóðareign, meginreglan þar eru tímabundnir samningar. Ég nefni orkuframleiðsluna sem er á forræði ríkis og sveitarfélaga. Orkulögin heimila sveitarfélögum að framselja einkaleyfi til að starfrækja hitaveitu tiltekið tímabil í einu. Við sjáum þetta í rannsóknum og nýtingu auðlinda í jörðu; tímabundin leyfi. Lög um fiskeldi; mælt fyrir um rekstrarleyfi í tiltekinn tíma, til 16 ára. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um hálendisþjóðgarð, hvað gerði það? Skilgreindi hálendi Íslands sem náttúruauðlind í þjóðareign. Þar kom skýrt fram að óheimilt væri að reka atvinnustarfsemi í þjóðgarðinum nema með tímabundnum samningi. Það er sérstakt en kannski ekki svo flókið að átta sig á hvað það er sem veldur því að undantekningin eigi við um sjávarútveginn. Stundum felast nefnilega sterkustu skilaboðin í því sem ekki er sagt, í þögninni um þetta atriði sem öllu máli skiptir.

Frú forseti. Í Verbúðarlok hefur skapast töluverð umræða um tíðarandann og þá mynd sem var dregin upp af íslensku samfélagi. Þetta er auðvitað saga tíma sem var. Vitaskuld er ekki um heimildarmynd að ræða en þetta er miklu meira en vel gerð sjónvarpsþáttasería. Það er áhugavert að heyra fólkið á bak við þættina lýsa því yfir að það sem varðaði pólitíkina sjálfa í þessum þáttum sé satt og rétt, vitaskuld í þrengri tímaramma en engu að síður rétt. Það er samhengi sem varpar ljósi á tímann sem var en ætti ekki að þurfa að varpa ljósi á tímann sem er, hvers vegna pólitíkin er læst inni í þessum þankagangi. Kvótakerfið var sett á vegna slæms ástands fiskstofnanna við landið. Síldin hafði hrunið. Þetta er held ég saga sem er kennd í skólum landsins. Kvótakerfið var lausnin á ofveiðinni. Ég styð kvótakerfi sem tæki til þess hvernig við nálgumst miðin. Ákvarðanir um veiðar eru í dag teknar út frá vísindalegum forsendum sem hefur vitaskuld grundvallarþýðingu. Þetta er samfélagslega mikilvægt markmið og markmið sem þjónar umhverfinu. Afleiðingin er að framleiðni, hagræðing, verðmætasköpun, allt hefur þetta aukist með fyrirkomulaginu og það þjónar hagsmunum þjóðfélagsins alls. En af hálfu hagsmunaaðila og af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er aftur og aftur farið í að reyna að afvegaleiða umræðuna með því að láta að því liggja að sjálfbærar veiðar séu átakapunkturinn í samtalinu, að sjálfbærar veiðar séu hluti af því sem gagnrýni þjóðarinnar lýtur að. Ég veit að hagsmunaöflin og ég veit að þeir Sjálfstæðismenn sem þannig tala vita ósköp vel að þetta er ekki átakapunkturinn í málinu heldur hvað þjóðin fær fyrir það að veita útgerðinni aðgang að þjóðareigninni sem sjávarauðlindin er.

Aftur og aftur höfum við séð mælingar og kannanir sem sýna að þjóðin er ekki hlynnt því hver gjaldtakan er. Það er reyndar þannig að samkvæmt könnunum eru fá mál sem þjóðin er jafn samstiga um. Samkvæmt einni könnuninni frá Gallup eru 7,1% þjóðarinnar á móti því að útgerðirnar greiði markaðsgjald fyrir afnotin. Engu að síður virðist ekki eiga að hagga þessu. Arðgreiðslur út úr sjávarútvegi frá 2016–2020 námu meira en 70 milljörðum kr. Útgerðirnar greiddu á sama tíma um 35 milljarða í veiðigjöld, helming þess sem eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna fengu í arð. Hagnaður útgerðar fyrir skatta og gjöld frá 2011–2020 var um 616 milljarðar að mér skilst. Á þessum tíma greiddi sjávarútvegurinn um 30% í skatta og opinber gjöld og veiðigjöld. 70% fóru þá til útgerðarinnar sjálfrar. Þetta er atriði sem svíður. Hérna eru póliltísku átakalínurnar óskaplega skýrar.

Ég vildi því nýta tækifærið, nú þegar þetta mál er hér á dagskrá á sama tíma og enn á ný er hávær umræða í samfélaginu um þessa atvinnugrein og um hlut þjóðarinnar, og ræða þessi mál heildstætt. Ég er þeirrar skoðunar að markaðsgjald fyrir aðgang að fiskimiðunum sé hin skynsamlega leið, sé hin réttláta leið, sé hin trúverðuga leið, það sé sanngjörn leið fyrir þjóðina, það sé sanngjörn leið fyrir sjómennina og það muni fela í sér sanngjarnar leikreglur fyrir atvinnugreinina í heild sinni. Þeir sem veiða núna munu vitaskuld geta gert það áfram en munu borga eðlilegt gjald fyrir afnot af auðlindinni. Það er það sem málið allt saman snýst um.

Ég myndi kannski vilja nefna það í lokin að við höfum nálgast málið þannig að þeir milljarðar sem við þetta fengjust færu í sérstakan innviðasjóð sem kæmi byggðunum sem fiskinn veiða til góða. Þessir fjármunir myndu því nýtast í innviðauppbyggingu sem við vitum að sannarlega er þörf á víða um landið, í uppbyggingu á þeim svæðum þar sem kvótinn upprunninn.