Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:15]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þingskjali 490 sem er 350. mál um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og á lögum nr. 145/2018, um veiðigjald, er varðar öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni.

Með lögum nr. 49/2017, um ýmsar breytingar á lögum á sviði sjávarútvegs vegna öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni, voru í fyrsta sinn settar sérstakar reglur um nýtingu á sjávarplöntum í náttúru Íslands. Með þessu komu ítarleg ákvæði um þangslátt í lög um stjórn fiskveiða og er í lögunum mælt fyrir um skyldu til að hefja endurskoðun laganna um ákvæði um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni eigi síðar en í október 2020, en auk þess er mælt fyrir um að ákvæði laganna falli í heild úr gildi þann 1. janúar 2023, sbr. XIX. ákvæði til bráðabirgða við lög um stjórn fiskveiða. Þannig eru gildandi lög þeirrar gerðar að þau munu falla úr gildi um næstu áramót og þá munu engin lög gilda um þessa tilteknu nýtingu en um þetta var búið með þessum hætti í afgreiðslu Alþingis á sínum tíma.

Í samræmi við þessi lög frá árinu 2017 og þá umræðu sem var töluverð í kringum þá lagasetningu hefur Hafrannsóknastofnun aukið verulega rannsóknir á sjávargróðri. Með frumvarpinu er fylgiskjal með minnisblaði Hafrannsóknastofnunar um rannsóknarverkefni sem unnið hefur verið að á vegum stofnunarinnar í tengslum við þang- og þaratekju í Breiðafirði frá 2016–2020.

Í fylgiskjali með frumvarpinu er einnig að finna greinargerð Hafrannsóknastofnunar um þang og þara og nýtingu þeirra en með frumvarpi þessu er lagt til að regluverk verði einfaldað. Segja má að það sé byggt á þeirri reynslu sem er nú fyrir hendi og í ljósi þeirrar reynslu er ekki talin þörf á sértækum lagaákvæðum um rannsóknarskyldur Hafrannsóknastofnunar og annarra stofnana á sjávargróðri umfram almennar reglur sem um þessar stofnanir gilda og rannsóknaráherslur þeirra þannig að sértækt lagaákvæði um rannsóknarskyldu er ekki talið nauðsynlegt í ljósi almennrar löggjafar þar um.

Lagt er til að nýting vinnsluaðila á þangi í atvinnuskyni verði leyfisbundin hjá Fiskistofu á grundvelli nýtingaráætlunar og Fiskistofa muni veita leyfi til nýtingar á þangi fyrir hverja sláttutíð eða til allt að fimm ára. Helsti grundvöllur leyfisins er ætíð svonefnd nýtingaráætlun sem skuli þar með lögð til grundvallar. Þar er svo aftur nauðsynlegt að byggja á bestu fáanlegu upplýsingum um útbreiðslu þangs og möguleika til hagnýtingar að teknu tilliti til umhverfisaðstæðna. Innan netlaga verður síðan að vera samkomulag við eiganda eða ábúanda sjávarjarðar.

Þá er lagt til að afnumin verði heimild til að leyfisbinda móttökustöðvar fyrir þang en þessi heimild hefur ekki verið hagnýtt og vegna þeirra tillagna sem frumvarp þetta hefur að geyma um gerð nýtingaráætlana fyrir þangslátt er ekki lengur þörf talin á þeirri heimild.

Þá er lagt til að svæðastjórn verði viðhaldið við öflun sjávargróðurs utan fjöru. Með þessu hafa stjórnvöld möguleika á að afmarka þau svæði þar sem sláttur á sjávargróðri er heimilaður á ári hverju og tryggja að ekki sé við nýtingu farið umfram ráðgjöf fyrir hlutaðeigandi svæði, samanber tilvísun til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, um heimildir ráðherra til að gera kröfu um sérstakt leyfi Fiskistofu til öflunar sjávargróðurs í atvinnuskyni utan fjörusvæða. Ég legg því til að ekki verði lagt veiðigjald á sjávargróður enda er um nýja atvinnugrein að ræða og auðlindin hefur ekki verið hlutdeildarsett. Til stuðnings við þessa nýju atvinnugrein og möguleika hennar til vaxtar og nýsköpunar, og ekki síður fyrir byggðafestu og atvinnusköpun á landsbyggðinni, þá tel ég þetta skipta miklu máli.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er lagt fram í nokkuð óvenjulegu samhengi í ljósi þess að núverandi lagaumhverfi mun falla úr gildi um næstu áramót og um leið tel ég rétt, við framsögu þessa máls, að gera grein fyrir því að við umfjöllun málsins, bæði í samráðsgátt stjórnvalda og í því samráði sem ráðuneytið hefur getað átt í aðdraganda málsins, hafa komið fram mjög mörg og fjölbreytt sjónarmið.

Alþingi afgreiddi málið með þeim hætti sem hér er vikið að á sínum tíma í ljósi þess hversu mikilvægt það var að ná einhverjum lagaramma utan um þessa nýtingu en jafnframt taldi þingið á þeim tíma mjög mikilvægt að Hafrannsóknastofnun aflaði sér frekari upplýsinga og rannsókna á þeim tíma sem lögin væru í gildi. Þess vegna vil ég geta þess strax við framsögu málsins að mér finnst mikilvægt að þingið taki þetta frumvarp til mjög ítarlegrar skoðunar. Ég tel að það sé mikilvægt að atvinnuveganefnd fari mjög vel í saumana á málinu og hlusti mjög vel eftir þeim sjónarmiðum sem fram koma, bæði af hendi þeirra sem hafa verið að sinna þessum rekstri og þessari atvinnugrein en ekki síður af hálfu þeirra sem hafa stundað vísindarannsóknir á þessu sviði. Nýtingin er auðvitað alltaf gríðarlega viðkvæmur þáttur og við höfum áður fjallað hér um mikilvægi þess að farið sé af aðgát og varfærni í nýtingu á hverju svæði um sig en ég vil brýna nefndina ekki síst að því er varðar varúðarreglu vegna þess að ljóst er að þarna er um að ræða þá hluta vistkerfanna sem hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna varðandi aðrar tegundir sjávarfangs. Ég vil árétta þetta í ljósi þess að ákvörðunin er auðvitað alltaf þingsins þegar um löggjöf er að ræða og hér er frumvarpið fram borið af mér í hlutverki ráðherra sjávargróðurs en ég árétta hér við 1. umr. málsins hversu mikilvægt það er að fara varfærnum höndum um þetta verkefni þó að það kunni að fela í sér frávik frá þeim áherslum sem lagðar eru hér við 1. umr. málsins.