Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:28]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég tel um stærra mál að ræða en lagatæknilegt atriði. Við vorum að tala hér í umræðunni áðan um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða varðandi kvótasetningu sandkola og sæbjúgna og hryggleysingja. Þetta mál, sem lýtur að öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni, snýr mjög mikið að landeigendum. Ég hef unnið að þjóðlendumálum og þar eru óbyggðanefnd og ríkisvaldið að ráðast á bændur og landeigendur varðandi hálendið. Í öllum landamerkjabréfum, sem byrjuðu með fyrstu lögum árið 1881, skilgreindu bændur aldrei land ofan fjallsbrúnar því að þeir treystu Jónsbókarákvæði um vatnaskil. Þeir fjölluðu ekki um netlög heldur af því að þeir treystu netlagaákvæði Jónsbókar. Svo kemur löggjafinn seinna og segir hvað þau eigi að ná langt, 110 m frá sjávarmáli. Ég tel að þetta mál hér lúti að stórum hluta að rétti landeigenda. Öll nýting í atvinnuskyni á öflun sjávargróðurs verður að gerast samkvæmt samkomulagi við landeigendur sjávarjarða sem eiga netlög. Leyfið ætti þá að byggjast á því samkomulagi. Mér finnst fljótt á litið að í þessu frumvarpi sé það leyfið sem er í forgrunni en samkomulagið í bakgrunni. Það á að vera algjörlega öfugt. Ég fagna því sem ráðherra sagði varðandi það að þetta mál verði tekið til ítarlegrar skoðunar í nefnd sem svo sannarlega þarf að gera. Þá væri vert að þetta yrði skoðað alveg í grunninn hvað það varðar. Nú eru þetta stjórnarskrárvarin eignarréttindi sem hér er verið að nýta hvað varðar sjávargróður innan netlaga. Ég tel að netlög — það má skoða það og ég verð vonandi með þingmál um það síðar í vetur ef tími vinnst til þar sem ákvæði Jónsbókar verður skoðað, ekki síst varðandi land og sérstaklega varðandi netlög. Ég veit að það kom fram þingsályktunartillaga (Forseti hringir.) um að skoða ákvæði Jónsbókar varðandi netlög.