Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 39. fundur,  22. feb. 2022.

stjórn fiskveiða og lög um veiðigjald.

350. mál
[16:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir að ég held að nefndin verði að fara vel yfir þetta mál þó að margt sé skiljanlegt og jafnvel kunnuglegt í þessu en það hafa líka orðið einhverjar breytingar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um skýrslu Háskólaseturs Vestfjarða frá 2018 en þar er m.a. sagt að vinnsla úr þörungum hér við land, úr þangi og þara, geti orðið stærri iðnaður í framtíðinni — sem er fagnaðarefni. Þess vegna er verið, eins og ég skil þetta, að breyta ákveðnum áherslum. Er þá verið að tala um nýtingu á þangi og þara innan einmitt netlaga eða er þetta á almennu hafsvæði?

Í öðru lagi vil ég spyrja: Af hverju er eðlilegast, eins og segir í greinargerðinni, að setja ótímabundin lög um þessa nýtingu til að tryggja fyrirsjáanleika í rekstri atvinnufyrirtækja? Af hverju samt ótímabundin lög? Ég hefði einmitt haldið að tímabundin lög hefðu átt að veita ákveðinn fyrirsjáanleika í þessu, hvað þá einhverjir samningar, ef þetta er fyrir utan netlögin.

Síðan langar mig að spyrja: Af hverju dragast tekjur ríkissjóðs saman um 8,5 milljónir kr. þegar verið er að undanskilja sjávargróður veiðigjaldi? Þetta eru þrjár spurningar og svo fyrir forvitnissakir er fjórða spurningin sú hvort kræklingaræktun hafi eitthvað verið skoðuð í þessu samhengi af því að þar liggja mikil sóknarfæri. Mig langar að vita í samhengi þessa máls sem við erum að ræða hvaða athuganir ráðuneytið hefur gert í samvinnu við bæði landeigendur og aðra í tengslum við kræklingaræktun sem þá væri hægt að fara af stað með víða um land og gæti styrkt um leið hinar ýmsu sjávarbyggðir landsins ef rétt er að málum staðið.