153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Vaxtakostnaður ríkissjóðs hefur aukist hratt á síðustu árum vegna hallareksturs og skuldasöfnunar ríkisstjórnarinnar en ekki síst erum við minnt á hinn blákalda veruleika sem fylgir hávaxtaumhverfinu á Íslandi. Þetta umhverfi er einhvers konar Tóti töfragleypir sem gleypir fjármuni sem væri betur fyrir komið annars staðar, t.d. í velferðarkerfinu okkar. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru vaxtagjöld á Íslandi umtalsvert hærri en í nágrannaríkjunum, fimm til sex sinnum meiri en á öðrum Norðurlöndum og í öðrum alþjóðlegum samanburði eru vaxtagjöldin okkar meira að segja hærri en í ríkjum sem eru töluvert skuldsettari en Ísland, sum þeirra jafnvel með tvöfalt meiri skuldir.

Á síðustu árum hafa vaxtagjöldin hér aukist um einhverja 50–60 milljarða kr. og á næsta ári er gert ráð fyrir að þau verði 95 milljarðar. Ef við setjum þessa 95 milljarða í samhengi við aðra útgjaldaflokka er þetta litlu minna en allt framhaldsskóla- og háskólastigið fær í fjárlögum og litlu meira en framlög til samgöngumála og heilsugæslunnar okkar til samans. Við getum rétt ímyndað okkur hvað hægt er að gera fyrir þessa fjármuni. Gleymum heldur ekki vaxtamuninum. Langtímavextir á evrusvæðinu eru t.d. um helmingur af langtímavöxtum hér. Það væri sannarlega óskandi, þótt ekki sé beðið um meira, að vaxtagjöldin á Íslandi væru helmingi lægri en þau eru nú. Þeir 40–50 milljarðar sem þannig gætu sparast samsvara m.a. framlögum okkar til sjúkratrygginga, gætu tryggt samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga, talmeinafræðinga, sérfræðinga og áfram mætti telja. Ef vaxtagjöld á Íslandi væru ekki þriðji stærsti útgjaldaliðurinn, eins og þau eru í dag, væri hægt að tryggja sjálfbæra velferð samhliða ábyrgri efnahagsstjórn í stað þess að taka lífskjörin áfram að láni og senda reikninginn til komandi kynslóða líkt og ríkisstjórnin hefur tamið sér.