153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

René Biasone (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að tala um fræðslu gegn hatursáróðri. Í fyrra skipulögðu íslenskir/ítalskir foreldrar viðburð fyrir börn til að fræða börn um hvernig fordómar myndast og magnast. Lesin voru ítölsk ljóð um rasisma, stríð og frið. Börnin þýddu ljóðin yfir á íslensku og öðluðust orðaforða um réttlæti, mannréttindi og umburðarlyndi. En þýðingarmesti viðburðurinn var rafrænn hittingur með tveimur systrum, þeim Andra og Tatiana Bucci sem fimm og sjö ára gamlar lifðu af hörmungarnar í Auschwitz. Þær hafa síðan helgað líf sitt því að segja frá helförinni og miðla til ungra kynslóða mikilvægi þess að standa vörð um siðmenningu og frið. Þá gafst börnum og fullorðnum á Íslandi tækifæri til að tala beint við fórnarlömbin en sá dagur mun brátt koma að ekki verður lengur hægt að tala beint við vitni um þessa skelfilegu atburði.

Í dag sjáum við aftur víða í Evrópu uppsveifluhópa sem nýta sér í pólitískum tilgangi fordóma og hatur gegn ákveðnum minnihlutahópum eins og múslimum og innflytjendum en líka gegn pólitískum andstæðingum. Það er sérstaklega mikilvægt að ræða um orsök helfararinnar sem var fyrst áhugaleysi og afskiptaleysi fólks en breyttist í hatursáróður og fordóma sem svo tóku að vaxa í Evrópu strax eftir fyrri heimsstyrjöld.

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að Alþingi og tilheyrandi ráðuneyti leggi á það áherslu að efla enn meira fræðslu til komandi kynslóða hér á landi um afleiðingar hatursglæpa, til að mynda með stuðningi við sögukennslu í skólum og með skipulagningu viðburða, svo sem sýninga og tónleika. Í þessu samhengi færi vel á því að gera 27. janúar að alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb helfararinnar.