153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:43]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Þessi ríkisstjórn hefur hingað til ekki litið svo á að lögregla, ákæruvald, dómstólar og fangelsi tilheyri mikilvægum innviðum. Fjárveitingar til þeirra birta því miður þá afstöðu. Á þetta hef ég bent hér inni í þessum þingsal í nokkurn tíma. Í Landsrétti gerist það þannig reglulega að dómar fyrir alvarleg sakamál eru mildaðir vegna þess að málin hafa þótt taka of langan tíma að fara í gegnum kerfið. Þetta gerist í nauðgunarmálum, þetta gerist í alvarlegum ofbeldisbrotamálum, þetta gerist í umfangsmiklum efnahagsbrotamálum. Ástæðan er einföld: Kerfið annar ekki málafjöldanum. Dómarar þurfa þess vegna að dæma menn til vægari refsingar en þeir hefðu annars talið eðlilegt að gera. Á sama tíma gerist það svo að fangelsin geta ekki fullnýtt sín pláss vegna fjárhagsvanda. Menn eru boðaðir seint til afplánunar, jafnvel ári eftir dóm og þá kannski komnir á annan og betri stað í sínu lífi. Þolendur vita líka sem er að dæmdir gerendur þeirra ganga stundum lausir. Þetta getur auðvitað fælt þolendur frá því að kæra brot og í því felst alvarleg ógn við samfélagið allt. Tvær stórar sakamálarannsóknir eiga ekki að geta sett heilt fangelsiskerfi á hliðina. Ef það gerist þá blasir við að kerfið var þá þegar komið langt umfram öll eðlileg mörk, komið á þann stað að réttarkerfinu er stefnt í hættu. En ég vil óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með að hafa náð árangri í viðureigninni við fjármálaráðherra nú fyrir 2. umr. fjárlaga því að fjárlögin hafa í gegnum tíðina ekki verið hliðholl þessum málaflokki og ég tel að hann hafi staðið vel að verki hér.

Ég minni á niðurstöður fyrirspurnar minnar um að 279 karlar og 38 konur voru á biðlista eftir afplánun í haust, (Forseti hringir.) en ég sakna heildarstefnu og minni á að það þarf að horfa á kerfið allt; löggæslu, ákæruvald, dómstóla, fangelsi og síðast en ekki síst forvarnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)