153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:53]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og margar málefnalegar ræður sem hér hafa verið fluttar sem eru gott innlegg í málið. Það er ánægjulegt að rekstrarvandi fangelsa hefur verið leystur í bili og þar hafa tillögur mínar fengið framgang í tillögum fjármálaráðherra svo ekkert var af skorið. En þetta mun ekki duga til að svara þeirri þróun sem við horfum fram á, þ.e. fleiri og lengri dómar sem við búum við, og við munum þurfa að horfa til framtíðar. Það er líka áhyggjuefni sem talað er um meðal fangavarða að það sé komin ný kynslóð fanga sem eru harðsvíraðri og það sé meira ofbeldi. Öryggi fangavarða, þjálfun þeirra og öryggisbúnað þarf að skoða með tilliti til þessa. Uppbygging innviða er síðan eitt og við erum að fara í það á Litla-Hrauni. En það þarf skýra framtíðarsýn. Við þurfum að fjölga opnum rýmum og við þurfum að hugsa til þess að stærri einingar eru hagkvæmari í rekstri. Efling heilbrigðisþjónustu er í raun grundvallaratriði, forvarnastarf og heilbrigðisþjónusta, aukning á félagslegri þjónustu, styrking geðheilbrigðisteymisins, til að mynda með fjölgun á starfsfólki þar eins og iðjuþjálfum, og bætt aðgengi að þessari þjónustu. Við þurfum einnig að horfa til menntamála fanga og við þurfum að horfa alveg sérstaklega til ungra drengja í þessu samhengi, sem eru þessi nýja kynslóð sem talað er um og í samtölum mínum við fangelsismálastjóra sjáum við mikla möguleika á að vinna með þennan hóp. Við þurfum að vinna á biðlistanum. Það er óþolandi að fólk sé að bíða í mörg ár eftir að komast í afplánun. Við þurfum líka að huga að heimsóknum barna. Það hefur verið í lamasessi en úr því verður bætt frá og með 1. desember þar sem við munum opna fyrir heimsóknir utan skrifstofutíma sem þetta hefur verið bundið við fram að þessu.

Það á að blanda inn í þetta baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi. Það er eins og hv. þm. Sigmar Guðmundsson vilji setjast niður við samningaborð með þessu fólki og semja við það um að hætta iðju sinni. Ég er sammála öllu því sem talað er um með forvarnastarf í þeim efnum en hann gerir sér greinilega enga grein fyrir þeim alvarleika sem og ábyrgð sinni gagnvart þeim alvarleika sem við okkur blasir (Forseti hringir.) í skipulagðri brotastarfsemi. Það er líka alvarlegt þegar hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fullyrðir (Forseti hringir.) það að dómarar hér, dómstólar landsins séu að dæma vægari dóma (Forseti hringir.) vegna aðstöðuleysis í fangelsum. (Gripið fram í.) Hér talar fulltrúi á löggjafarsamkundunni — (Gripið fram í.)(Forseti hringir.) Hér talar fulltrúi á löggjafarsamkundunni og fullyrðir að dómstólar landsins séu að dæma vægari dóma (ÞorbG: Ég sagði ekki …) á grundvelli þess að ekki sé aðstaða í fangelsum (ÞorbG: Ég sagði ekki … Nei …) til að taka við þessu.