153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:25]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var í raun og veru bara þetta sem ég vildi fá mjög skýrt fram í þessari umræðu. Eins og ég var að rekja hefur það loðað við hjá flokksfélögum hv. þingmanns að reynt að stilla þessu upp með svolítið villandi hætti. Ég verð að segja að það út af fyrir sig er alvarlegt mál. Veiðigjöldin — það er eitt umdeildasta málið í samfélaginu, og hefur verið um langt skeið, hvernig við rukkum fyrir afnotin af auðlindinni. Það er því ákaflega brýnt að menn nálgist það viðfangsefni sem nú liggur fyrir þannig að við séum að gefa rétt skilaboð út í samfélagið. Ég tek þá bara við þessu, hef svo sem enga sérstaka aðra spurningu til hv. þingmanns, en kem þeirri ósk á framfæri við þingheim að þegar við ræðum um málið hér í dag, í þessu mjög svo umdeilda og viðkvæma máli, vöndum við okkur í framsetningu og köllum hlutina réttum nöfnum. Það er ekki verið að hækka veiðigjöld. Það er einfaldlega verið að leiðrétta ákveðin mistök sem urðu við lagasetningu sem hefðu leitt til lækkunar veiðigjalda.