153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir skýra framsetningu á því sem hér er verið að gera, að hér sé að eiga sér stað tilfærsla, eins og hún lýsir réttilega, hér sé ekki verið að hækka veiðigjöld. Ég verð að taka undir með öðrum þingmönnum hvað það varðar að framsetning í fjölmiðlum hefur verið eins og ríkisstjórnin sé að stíga það skref að hækka veiðigjöld. Ég hef ekki rýnt þannig í fréttirnar að ég geti lagt mat á það hvað er hvað í því samhengi eða hvaðan það kemur. En þetta hefur alla vega verið framsetningin gagnvart almenningi í fjölmiðlum, veiðigjöld séu að hækka. Nú er verið að staðfesta að svo sé ekki. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, af því að hún er jafnframt formaður fjárlaganefndar, vegna þeirra aðstæðna sem núna eru uppi í fjármálum ríkisins með allan þennan halla, með vaxandi áskoranir í ríkisfjármálunum út þetta ár og allt næsta og því miður horfum við fram á það að skuldir lækki ekki fyrr en 2027: (Forseti hringir.) Var ekki kitlandi að skoða málið betur og fara í það að hækka veiðigjöldin við þessar aðstæður?