153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:40]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu hér. Ég hjó eftir því að hann byrjaði á að tala um varúðarmerki sem þyrfti að skoða. Ég er eiginlega í þeirri stöðu að eiga erfitt með að skilja þetta. Ég skil að á árinu 2021 hafi verið gerð breyting á lögum sem heimilaði aukna fyrningu á fjárfestingu úr því að vera 20% í 50%. Það hafði síðan ákveðnar afleiðingar í för með sér sem við erum að ræða hér og erum misánægð með í sjálfu sér. Ég ætla ekki að velta því fyrir mér akkúrat núna. Ég er eiginlega á sömu blaðsíðu og hv. þingmaður þegar hann ræðir þetta með að þetta sé vegna áranna 2020–2021, til að hjálpa upp á stöðu sem orsakaðist af faraldri. En þarna er tyrfinn texti, með leyfi forseta:

„Frumvarpið felur nánar tiltekið í sér að sett er þak á fyrningar skipa og skipsbúnaðar sem geta komið til frádráttar við útreikning á reiknistofni veiðigjalds …“

Þarna er talað um eitthvað sem er hærra en 20% að viðbættum 200 milljónum, en síðan er talað um að áætluð vaxtagjöld skuli nema sömu fjárhæð og þær fyrningar sem eru lagðar til grundvallar útreikningi veiðigjalda. Ég næ ekki alveg utan um þetta. Hvað segir þetta okkur? Er verið að koma í veg fyrir að einhverjar útgerðir séu yfir höfuð að borga veiðigjöld með þessu háttalagi? Ég næ þessu bara ekki.