153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf slæmt þegar við þurfum hér í þessum sal að ljúka einhverju á methraða og undir eru alls konar flókin atriði sem þingmenn þurfa að setja sig inn í. Þá yfirsést fólki og þannig var það bara í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta þingi þegar verið var að vinna með ívilnunarákvæðin. Þá voru menn mjög jákvæðir gagnvart því eins og staðan var þá — við vissum ekki alveg hvernig landið myndi liggja eftir heimsfaraldurinn og ýmis slæm teikn á lofti — að ríkið myndi með einhverjum hætti reyna að örva fjárfestingu eða gera eitthvað til að fólk væri tilbúnara til að fara út í fjárfestingu á þessum tímum. Nefndin bætti við árinu 2022, í upphaflega frumvarpinu var bara talað um 2021. Sérstaklega voru menn jákvæðir gagnvart því að farið yrði í grænar fjárfestingar, að ríkið myndi eitthvað gera til að ýta á og hvetja til grænna fjárfestinga. Það var aldrei talað um veiðigjöld í þessu sambandi og meira að segja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gátu ekki séð það fyrir að sjávarútvegurinn myndi nýta sér þetta bráðabirgðaákvæði vegna þess að undirbúningur undir stórar fjárfestingar í útgerðinni tekur lengri tíma en svo. Samt erum við í þessari stöðu og meiri hlutinn óskar eftir því að þetta frumvarp fari hratt í gegn til þess að jafna út sveiflurnar sem þetta bráðabirgðaákvæði veldur.