153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það er auðvitað áhugavert og sérstakt að við séum í þessari stöðu núna að afgreiða þetta mál sem kemur með sérstökum hætti inn til okkar. Við erum í tímapressu að afgreiða þetta. Það er búið að rekja ágætlega hver skýringin á því er. Auðvitað er verið að setja þingið allt í svolítið sérstaka stöðu og vegna tímapressunnar gefst okkur kannski minni tími til að fara yfir ákveðin grundvallaratriði sem hefði verið gott að leggjast betur yfir. Þetta á sér allt rætur í því að menn sáu ekki alveg fyrir hverjar afleiðingarnar af því yrðu að breyta lögum um tekjuskatt vegna sérstakra Covid-aðgerða sem áttu að hvetja til fjárfestinga. Það út af fyrir sig er umhugsunarefni. Að menn sjái þetta ekki fyrir segir okkur auðvitað alveg heilmikið um það hversu flókið þetta veiðigjaldsfyrirkomulag er sem við búum við í lagaumhverfinu í dag. En það er a.m.k. algerlega hafið yfir allan vafa að það var aldrei ætlunin eða markmiðið með þeirri breytingu sem var gerð á lögum um tekjuskatt að lækka veiðigjald, um það eru allir sammála. Það var aldrei meiningin að þetta ætti að koma til lækkunar á veiðigjaldi. Það varð hins vegar staðan vegna víxlverkunar við veiðigjaldslögin sjálf og þeirrar lagabreytingar sem gerð var á tekjuskattslögunum og staðan er sú að við erum að horfa upp á talsverða lækkun veiðigjalds þegar heildarstaðan er skoðuð. Þetta er út af fyrir sig alvarlegt mál. Auðveldast þætti mér vera og hollt, eins og ég hef reyndar áður bent á í ræðustól um þetta tiltekna mál, ef við myndum velta því fyrir okkur hvað hefði gerst ef við hefðum lagt málið upp með þeim hætti, þegar breytingarnar voru gerðar á lögum um tekjuskatt, að afleiðingin myndi verða sú að veiðigjald yrði lækkað. Auðvitað hefði enginn farið þannig af stað með málið, ekki nokkur maður. Bæði hefði það ekki þótt rétt leið þegar menn eru að reyna að hvetja til fjárfestingar, að þetta væru einhvers konar hliðaráhrif af því, og þess utan held ég að það yrði aldrei sátt um slíka ráðstöfun í samfélaginu. Sama hvar menn standa í þessum deilum um sjávarútveginn þá held ég að það sé alveg hægt að slá því föstu að það hefði enginn lagt þannig af stað með málið á sínum tíma.

Hins vegar er þetta staðan og þessi formáli finnst mér svolítið mikilvægur vegna þess að mig langar að gera það að umtalsefni, sem ég gerði í andsvörum fyrr í dag og fleiri þingmenn hafa verið að benda á í ræðum, að þegar þingið er allt í einu í þeirri stöðu og við öll að þurfa að afgreiða þetta mál með miklu hraði vegna mistaka — auðvitað er ekki hægt að kalla það annað en mistök að hafa ekki séð hlutina fyrir með þessum hætti, enginn illvilji er þar á bak við heldur bara einföld mistök — þá er auðvitað grafalvarlegt mál að menn reyni að stilla málum þannig upp að þessi óviljandi lækkun sem varð sé einhvern veginn nýtt í pólitískum spuna til að tala um að nú sé verið að hækka veiðigjald þegar verið er að dreifa lækkuninni á nokkur ár.

Það er alveg ótrúlega afhjúpandi að þetta skuli vera staðan. Ég mótmæli því harðlega að Vinstrihreyfingin – grænt framboð skuli setja málið þannig upp í sínu efni á samfélagsmiðlum að matvælaráðherra sé hér að koma með útbreiddan faðminn og sé í meiri háttar tekjuöflun fyrir ríkissjóð með því að hækka veiðigjald. Það er auðvitað ekki þannig. Hins vegar segir þessi spuni okkur allt um þau viðhorf sem almennt eru í samfélaginu til þessa máls, vegna þess að VG veit það auðvitað betur en margir aðrir að boðun sérstakrar lækkunar á veiðigjaldi myndi aldrei falla í kramið hjá almenningi og yrði aldrei sett í kynningarefni flokksins á samfélagsmiðlum, einfaldlega vegna þess að menn vita að með réttu er engin stemning fyrir því í samfélaginu. Þegar þingið er sett í þessa stöðu að þurfa núna að taka þessa lækkun og dreifa henni yfir tíma til að koma á nokkurs konar sveiflujöfnun, bæði fyrir ríkissjóð og sjávarútvegsfyrirtæki, þá er það eiginlega fyrir neðan allar hellur að menn skuli reyna að nota það tækifæri til að slá pólitískar keilur í einhverju ímyndarstríði þarna úti.

Þögn Sjálfstæðisflokksins um það sama er auðvitað líka mjög afhjúpandi vegna þess að þar á bæ er kannski aðeins annað viðhorf ríkjandi til þessara mála. Við erum hins vegar í þessari stöðu og hljótum að geta gert þá kröfu, ekki síst til flokks hæstv. matvælaráðherra og reyndar matvælaráðherra sjálfs, að kynning á málinu til almennings sé með betri hætti en verið hefur. Hæstv. matvælaráðherra hefur í sjálfu sér heldur ekkert gert til að reyna að slá á þennan „misskilning“ um að verið sé að hækka veiðigjaldið en ekki lækka það eins og raunin er. Þar má kannski nefna það sem sagt var í viðtali á Ríkisútvarpinu þar sem ráðherra svaraði spurningu um þetta. Spurningin var, með leyfi forseta: „Þannig að það er ekki verið að hækka veiðigjöldin?“ Svar hæstv. matvælaráðherra var:

„Það er í raun og veru verið að endurskoða hvernig þessar fyrningar hafa áhrif á reiknigrunninn. Það hefur hins vegar ekkert með það að gera að veiðigjöld og allt sem að lýtur að ramma fiskveiðistjórnarkerfisins er til skoðunar í verkefninu Auðlindin okkar, það er til skoðunar þar“.

Þarna hefði t.d. verið gott tilefni til að koma réttum upplýsingum til almennings um að í raun væri veiðigjald að lækka. Þess í stað er því leyft að hanga í loftinu að það sé bara mögulega að hækka. Þessa framsetningu hljótum við að gagnrýna hér við meðferð þessa máls. Við hljótum öll að gera meiri kröfur til okkar en svo að mistök við lagasetningu sem leiða til lækkunar veiðigjalds séu nýtt í spuna um að verið sé að hækka veiðigjald þótt í einhverjum ströngum skilningi sé hægt að taka eitt afmarkað ár og túlka aðgerðina á þann veg, en þá eru menn auðvitað ekki að horfa til þeirra áhrifa sem verða á árinu á eftir. Það er eiginlega kjarni málsins í þessu.

Reiknigrunnur veiðigjaldsins er síðan sérkapítuli sem öðrum þræði er verið að ræða hér. Flækjustigið er mjög hátt. Það sést auðvitað best á þessari stöðu að breytingar á öðrum lögum hafa áhrif á þennan reiknigrunn veiðigjaldsins og við erum núna að fást við afleiðingar þess. Þar er um að ræða útreikning sem er byggður á opinberri verðlagningu sem gefur aftur bjagaða mynd og hefur í för með sér ósanngjarna og allt of lága gjaldtöku að mati okkar í Viðreisn. Við erum ekki hrifin af þessu veiðigjaldsfyrirkomulagi en úr því að við erum að ræða það hér ætlum við í meðferð þessa máls að leggja til að við breytum reiknigrunni veiðigjaldsins og erum við þá að tala um að reikna út veiðigjaldið á grundvelli markaðsverðs sem gefur réttari mynd og skilar sanngjarnari niðurstöðu að okkar mati. Það breytir hins vegar ekki þeirri skoðun okkar og stefnu flokksins að réttast væri auðvitað og farsælla, sem ég held að allt fólk til hægri í pólitískum skoðunum ætti að geta tekið undir, að láta markaðinn sjálfan verðleggja þetta og leggja mat á hvað réttast og sanngjarnt væri að greiða fyrir aðganginn að fiskimiðunum. Á þann hátt værum við líka að tryggja ákveðið gagnsæi í því hvernig farið er með þetta allt saman og fyrirsjáanleika til 20, 25, 30 ára. Auðvitað er hægt að útfæra það með ýmsum hætti en a.m.k. ættu slíkir nýtingarsamningar til langs tíma að gefa útgerðarfyrirtækjum fyrirsjáanleika til þess tíma. Auðvitað eru fordæmi fyrir slíku, t.d. í því hvernig við seljum raforku til stórnotenda í gegnum raforkusamninga sem eru ekki uppsegjanlegir nema einhverjar bætur komi fyrir. Með því væri ákveðinn fyrirsjáanleiki tryggður.

Fyrirsjáanleikinn er nefnilega ekki tryggður í þessu fyrirkomulagi sem við erum með í dag og meðferð málsins hér á Alþingi og hvernig þetta allt saman er til komið er auðvitað órækur vitnisburður um það og ekkert annað. Stefna míns flokks er að losa bæði stjórnmálamenn og embættismenn úr þeirri snöru að ákveða einhverja hluti sem markaðurinn ætti sjálfur að geta verðlagt og ákveðið fyrir okkur og við treystum honum jú til að leiðbeina okkur með verð á margs konar annarri vöru og þjónustu. Það sama ætti auðvitað að eiga við í þessu.

Í lokin langar mig að segja að í framhaldi af nýrri könnun meðal stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja höfum við séð að þar benda menn á að þunginn í umræðunni sem sífellt er um greinina er einmitt um þessi atriði sem við erum að ræða hér en kannski ekki um þá miklu nýsköpun sem er í greininni eða hversu mikil verðmæti greinin skapar að öðru leyti, afleidd áhrif og allt þetta. Þeir sem hafa verið að gagnrýna það hvernig við verðleggjum aðganginn að auðlindinni, ekki kvótakerfið sem slíkt, hafa bent á að það sé gríðarlega mikilvægt að ná einhvers konar sátt um greinina en þeir sem starfa innan hennar verða auðvitað að átta sig á því að sú sátt getur ekki bara verið á þeirra forsendum. Það eru þá kannski ákveðin öfugmæli fólgin í því að kveinka sér síðan undan að umræðan um greinina sé ósanngjörn. Hún litast eðlilega mikið af þessu. Úr þessu þurfum við að komast, eins og margoft hefur verið talað um, og komið hefur fram að stór nefnd er að störfum sem á að taka saman vinnu og kanna hvað hægt er að gera til að auka sátt og best að gefa sér ekki neitt um vinnu eða niðurstöðu þeirrar nefndar fyrir fram. Ágætt er þó að menn hafi hugfast í vinnu nefndarinnar að allt þetta hefur margoft verið reynt áður, en það er gríðarlega mikilvægt fyrir greinina sjálfa að um hana ríki sátt.

Ég verð að segja að þessi vegferð sem við erum á í tilefni af þessu máli er ekki beint til þess fallin að auka traust og trúverðugleika í kringum greinina þegar flækjustigið á því hvernig við ákvörðum veiðigjaldið er svo mikið að menn sjá ekki fyrir hvernig breytingar á einum lögum hafa áhrif á veiðigjaldslögin og þá hversu mikið fyrirtækin greiða til samfélagsins í gegnum þann stofn. Við erum því í þeirri stöðu að þurfa að klára þetta mál á skömmum tíma og ég hvet þingheim til að skoða breytingartillögu okkar við þetta mál. Það er a.m.k. ágætt í þessum mistökum öllum og þeirri vegferð sem við erum á að það gefist tækifæri til að ræða þetta fyrirkomulag á breiðari grunni eins og við erum að gera í mörgum ágætis ræðum við meðferð málsins hér í dag.