153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Bara örstutt, út af því sem ég fjallaði um áðan. Nú er þetta frumvarp að fara hratt í gegnum þingið og ég held að við ættum að setja okkur ákveðna þumalputtareglu, að þegar við setjum lög í flýti þá ættu þau almennt séð að vera tímabundin þannig að þingið geti tekið málið upp aftur með þessu heildarferli sem lög þurfa að fara í gegnum ef það á að gera einhverja hluti varanlega. Í þessu tiltekna tilviki er verið að gera ákveðnar varanlegar breytingar á lögum um veiðigjald. Ég spjallaði aðeins við nokkra nefndarmenn og framsögumann nefndarinnar í bakherbergjum eftir ræðu mína áðan og við fórum aðeins betur yfir það hvaða áhættuatriði eru í þessum varanlegum breytingum.Munurinn er í því sem er verið að bæta við, þar sem er sagt, með leyfi forseta: „Séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni …“ Þegar þeim tímabundnu breytingum samkvæmt ákvæði LXX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lýkur, þegar þær klárast, ættu almennt séð aldrei að verða fyrningar sem eru hærri en 20% af fyrningargrunni — ættu. Þetta er stóra varúðarmerkið sem slíkt. Við ættum að hafa hagað því þannig að við værum að gera þetta að tímabundnu ákvæði en eins og hefur verið sagt hérna er verið að gera heildarendurskoðun á lögum um veiðigjald. Ég verð samt að segja að ég býst ekki við miklu. Þetta verður örugglega eins og eitt af þessum áfengisfrumvörpum sem verður hjakkast í hérna í þinginu og alltaf mun einhver einn þingflokkur kippa þessu úr sambandi, koma í veg fyrir afgreiðslu o.s.frv. En þetta ákvæði um 20% hámark að viðbættum 200 milljónum fyrir þá sem eru með smáútgerðir ætti ekki að vera of áhættusamt til að valda einhverjum skaða miðað við hvernig ástandið er óbreytt, án þessara tímabundnu breytinga sem eru í lögum um tekjuskatt.

Eftir nánari skoðun með þeim sem fóru yfir málið þá mun ég ekki kalla þetta inn á milli umræðna, sleppum því í þetta skiptið. En ég sendi samt ábendingu til allra þingmanna, ríkisstjórnar og fleiri að ef við glímum við mál sem þurfa að fara hratt í gegnum þingið þá ættum við að byrja að hugsa þau þannig að alltaf sé um tímabundnar breytingar að ræða. Ef það á að gera þær varanlegar þá þurfa þær heilt þinglegt ferli.

Ég þakka annars fyrir þessa umræðu og góðar viðtökur við tillögum mínum um að gera þetta tímabundið. Ég held að það sé ekki nauðsyn á því akkúrat eins og er. Eins og hefði átt að gera varðandi þetta ákvæði og t.d. ákvæðið varðandi lífeyrisaukasjóðinn sem við erum að glíma við, þá er þetta eitthvað sem þyrfti að vakta. Við erum að gera breytingar á skömmum tíma og einhver ætti að fylgjast með því hvort þetta valdi einhverjum titringi þannig að hægt sé að láta vita strax og bregðast við. Með þeim formerkjum þá læt ég alla vega þessari umræðu lokið.